Ráðherrar OPEC samþykkja að auka framleiðslu
Verkamaður við loka á olíuleiðslu í Daura-olíuvinnslunni, sem er rétt fyrir utan Bagdad, höfuðborg Íraks.
AP
Olíumálaráðherra OPEC-ríkjanna eru sagðir hafa komist að samkomulagi um það á fundi sínum í Beirút í Líbanon að auka olíuframleiðslu um 2 milljónir tunna á dag í júlí eða um 8%. Þá verður framleiðsla aukin um hálfa milljón tunna á dag til viðbótar í ágúst ef þörf þykir, að sögn ráðherranna. Olíuverð hefur hækkað á mörkuðum í dag og fór á ný yfir 40 dali tunnan á markaði í New York. Sérfræðingar segja óvíst hvort þessi framleiðsluaukning nægi til að koma ró á olíumarkaðinn.
Ákvörðun fulltrúa OPEC í Beirút var málamiðlun milli þeirra ríkja, eins og Sádi-Arabíu, sem vildu auka framleiðslu þegar í stað um 2,5 milljónir tunna á dag, og ríkja á borð við Íran, sem vildi hækka framleiðsluþakið í að minnsta kosti tveimur skrefum.
Ali Naimi, olíumálaráðherra Sádi-Arabíu, sagði við blaðamenn að samþykkt hafi verið að hækka framleiðsluþakið í 25,5 milljónir tunna á dag frá og með 1. júlí og í 26 milljónir 1. ágúst en ráðherrarnir munu koma saman 21. júlí í Vín til að fara yfir stöðuna og meta hvort þörf sé á aukningunni í ágúst.
Aðrir ráðherrar staðfestu þetta en formleg yfirlýsing verður gefin út síðar í dag. Bijan Namdar Zangeneh, olíumálaráðherra Írans, sagði að nauðsynlegt væri að auka framleiðsluna í 2 skrefum þar sem í raun væri ekki um að ræða olíuskort á markaði og því yrðu ríkin að fara varlega í að auka framleiðsluna.
Aðildarríki OPEC framleiða nú um 2,3 milljónum tunna meiri olíu á dag en framleiðsluþakið segir til um og með samkomulaginu í Beirút er í því raun verið að staðfesta núverandi framleiðslu.
Tekið af MBL.IS