
Adrien Brody fór með sigur af hólmi í hinum árlega Gumball 3000 kappakstri frá París til Cannes á suðurströnd Frakklands. Ók hann Porsche 911 túrbó en samtals voru eknir um 4.800 km.
Litlu munaði að Brody tapaði forystunni er annar ökuþór neyddi hann til að nema staðar er ekið var um Spán sl. föstudag. Sá hann allt í einu tvo hvítklædda menn sem blikkuðu ljósum BMW-bíls síns að honum, hélt það væru lögreglumenn og nam staðar.
Honum til mikillar skelfingar var um hrekk að ræða því annar hvítklæddu mannanna svipti af sér hvítri hárkollu er hann ók framhjá og fram úr, en þar reyndist vera um að ræða keppinaut hans Alexander Roy.
Margir þátttakenda voru sektaðir meðan á keppninni stóð en leið rallsins lá um Frakkland, Spán og Marokkó. Lögreglan í Montpellier í Frakklandi svipti fimm þeirra ökuréttindum.
Í kappakstrinum taka árlega þátt frægir og ríkir einstaklingar, t.a.m. tóku þátt að þessu sinni auk Brody fyrirsætan Jodie Kidd og frændi Fahds konungs Saudi Arabíu. Á meðal keppnisbíla mátti sjá Lamborghini, Bentley, Ferrari, Porsche og Maserati.
Eitt hundrað og sextíu þátttakendur lögðu af stað frá París 5. maí sl. og héldu til Marokkó þar sem keppnin hófst. Síðan var ekið um Spán og að lokum í gegnum suðurhluta Frakklands. Takmarkið er að ná til Cannes áður en hin árlega kvikmyndahátíð þar hefst. Komu fyrstu keppendur til Cannes í gær.
Tekið af Mbl.is