BBC breytir umfjöllun um Ísland og tekur út: „láta ekki vaða yfir sig“Smáfuglarnir sjá að Hjörtur J. Guðmundsson, sagnfræðingur, fylgist náið með breskum fjölmiðlum með hagsmuni Íslands fyrir brjósti. Hjörtur hefur tekið þátt í umræðum á vefsíðum erlendra fjölmiðla og varið þar hagsmuni Íslands af krafti ólíkt íslenskum stjórnmálamönnum sem vilja ekkert slíkt gera. Hjörtur tók eftir einu og segir á Facebook síðu sinni:
Jóhanna og Steingrímur hafa skemmt ímynd Íslands meira en nokkur annar. Nú er litið svo á að ekkert mál sé að vaða yfir Íslendinga. BBC breytir umfjöllun.
Fyrir um tveimur árum síðan og fyrir þann tíma hófst „prófíl“-umfjöllun um Ísland á heimasíðu brezka ríkisútvarpsins BBC á því að Íslendingar hefðu sýnt það að þeir létu ekki vaða yfir sig á alþjóðavettvangi og stæðu fast á rétti sínum. Þar var væntanlega einkum verið að vísa til þorskastríðanna. Nú hafa þessi ummæli verið tekin út úr umfjölluninni.
Þetta eykur eflaust þjóðarstolt þeirra stjórnmálamanna sem nú krjúpa fyrir nýlenduherrum Breta og Hollendinga og skuldsetja íslensk börn til að borga fyrir ákvarðanir erlendra embættismanna.
Smáfuglarnir telja þessa breytingu BBC mjög eðlilega. Dapurlega er það alveg satt að núverandi stjórnmálamenn láta hvern sem er vaða yfir sig án allrar fyrirstöðu ólíkt því sem gerðist í fyrri átökum við erlend ríki. Skiptir þar engu hver kemur með kröfur á hendur Íslandi þá stökkva þeir til og borga.
Hins vegar er það svo að Íslendingar almennt eru harðir í horn að taka og standa á rétti sínum. Þeir vilja ekki borga skuldir óreiðumanna. Óheppni Íslands er algjör að sitja uppi með núverandi stjórnmálamenn sem ungur smali kallaði kvígur fyrir nokkrum dögum og var þá skammaður fyrir orðbragðið.