http://blog.eyjan.is/omarragnarsson/2011/02/06/frelsi-eins-naer-thangad-sem-frelsi-annars-byrjar/Quote:
Frelsi eins nær þangað sem frelsi annars byrjar.
Í fyrradag henti ökumaður á bíl, sem beið fyrir framan mig á ljósum, gosdrykkjaflösku út um gluggann. Ég snaraðist út og rétti honum flöskuna aftur inn um gluggann með þessum orðum: „Þessi flaska datt út um gluggann hjá þér.“
Þetta tók örskotsstund meðan við biðum á rauða ljósinu og þegar það græna kom, ókum við báðir af stað. Meðan ég sá til kom flaskan ekki aftur út um gluggann.
Í því mikla landi frelsisins, Bandaríkjunum, er þetta orð sveipað dýrðarljóma en þó virkar margt þar eins og frelsisskerðing fyrir Íslendinga, svo sem það sem sjá má á skiltum í mörgum ríkjum, að ef það sannast að þú hafir hent sígarettustubbi eða bjórdós á víðavangi, þarftu að borga 130 þúsund króna sekt.
Af hverju svona háa sekt? Ástæðurnar eru sennilega tvær.
1. Frelsi eins nær þangað sem frelsi annars byrjar. Ég hef verið á milljón manna flugsýningum í Bandaríkjunum þar sem hvergi sést sígarettustubbur eða karamellubréf á jörðinni. Ástæðan er sú, að með því að einstaklingur taki sér það frelsi að henda slíku á jörðina, rænir hann um leið tíma og fyrirhöfn annars manns, sem fyrr eða síðar verður að tína þetta upp, rænir hann sem sé frelsi frá því að þurfa að gera það.
Ég spurði einn starfsmann, af hverju þetta væri svona strangt. Hann svaraði: „Um leið og byrjað verður að haga sér svona hérna mun það verða til þess að þessi flugsýning verður lögð niður. Við látum ekki skríl eyðileggja hana fyrir okkur, – hann hefur ekkert leyfi til að haga sér þannig gagnvart okkur.
Ég spurði af hverju sektin væri svona há. Hann svaraði: Það er til að undirstrika tvennt: Að við erum ákveðin í að láta ekki eyðileggja umhverfið fyrir okkur og ganga á stjórnarskrárvarinn rétt til þess að það sé óspillt og í annan stað verður sektin að hafa fælingarmátt.
Það er sáralítil fyrirhöfn fólgin í því að sjá sjálfur um eigin úrgang en ef enginn vill gera það, hlýst af stórfelld fyrirhöfn fyrir þá sem neyðast til að moka yfir skít slíks fólks eða þrífa hann upp.
Þeim, sem sýna af sér slíkt siðleysi, þótt í smáu virðist, er engin vorkunn til að taka afleiðingunum.“
Athyglisvert er að í stjórnarskrám margra landa eru ákvæði um að hver borgari eigi rétt aðgangi að óspjölluðu umhverfi, og að lifa í umhverfi sem ekki er heilsuspillandi.
Ekkert slíkt ákvæði er í stjórnarskrá Íslands.
_________________
Bjarki Hilmarsson
--
E34 520iA '90 --seldur--
E34 540 6 spd manual Touring '96 -- seldur

--