Ég hef til margra ára verið mótfallinn inngöngu í ESB og styrktist enn meira í þeirr skoðun minni eftir að hafa búið í Evrópu. Þetta er reyndar langt mál að fara yfir, en það sem sagt var áður er rétt. Það eru vissulega kostir og gallar við inngögnu og því vil ég sjá upplýsta umræðu á Íslandi. Ég er þeirrar skoðunar að ókostirnir yfirvegi kostina talsvert, en niðurstaðan er mismunandi hjá fólki eftir því hversu mikla áherslu það leggur á mismunandi kosti og galla. Ég er til dæmis yfirleitt ósammála þeim ástæðum sem VG setur upp sem forsendur fyrir því að við ættum ekki að ganga í ESB, enda ósammála þeim almennt.
Frjáls viðskipti, flutningur vinnuafls og fjármagns eru hluti af upprunalegu hugmyndinni við ESB. Þetta er mikill kostur. Svipað lagaumhverfi og stöðugleiki í því umhverfi er líka mikilvægt. Sami gjaldmilill myndi vissulega einfalda aðgengi erlendra fjárfesta að landinu. við höfum reyndar hluta af þessum góðu hlutum í gegnum EES. Fleira gott er hægt að telja.
Þegar kemur að göllunum þá finnst mér mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir hvert sambandið er að þróast, sjáið þessa frétt í dag:
http://www.mbl.is/mm/vidskipti/frettir/ ... esb_skatt/Nú ætlar sambandið að fara að sækja sinn eigin skatt. Völd hafa smátt og smátt verið að flytjast frá fólkinu sem kaus sér fulltrúa í eigin landi yfir til skipaðra fulltrúa miðjustýrðs apparats ESB sem enginn kaus.
Annað sem er mikilvægt að átta sig á er að bróðurparturinn af "tekjum" fer í styrki, yfir 50% í styrki til landbúnaðar. Hvað áhrif, halda þeir sem voru að tala um fátækt hér fyrr í þræðinu, að þetta hafi á fátækar þjóðir sem flytja út matvörur? Í evrópu er viðhaldið hræðilega inefficient landbúnaðarkerfi með styrkjum sem veldur því að matvöruverð er of hátt og fátækar þjóðir geta ekki selt sínar vörur þangað vegna verndartolla. Þetta finnst mér hræsni þróaða heimsins. Í þessum málum erum við Íslendingar reyndar enn verri ef eitthvað er, en amk trúi ég því að við Íslendingar getum breytt þessu einhverntíman, en það er einmitt málið, í ESB getum við afskalega lítið haft áhrif á nokkurn skapaðan hlut.
Margir leggja mikla áherslu á sjávarútveginn, það er auðvitað mikilvægt, sjáum hvað kemur út úr aðildarviðræðunum.
Ég gæti lengi haldið áfram um þessi mál, en ætla að snúa mér að gjaldmiðlamálum. Við erum með eigin gjaldmiðil og það gera sér allir grein fyrir því hversu mikla ókosti það felur í sér. En hvað ef við skiptum út kúk fyrir skít með því að taka upp evruna? Ég hef verið þeirrar skoðunar frá Því að hún varð til sem gjalmiðill að hún muni aldrei ganga upp til lengdar. Ef ekki þá verður henni haldið gangandi með stórkostlegum tilkostnaði.
Löndin sem hafa Evruna í dag eru einfaldlega of ólík til að sameiginlegur gjaldmiðill gangi upp, það er ekki af ástæðulausu að öll myntbandalög sem mynduð hafa verið í evrópu hafa liðið undir lok. Hundruðir hagfræðingar vöruðu við þessu þegar Evran var sett á laggirnar. Til þess að sporna við þessu voru MAASTRICT skilmálarnir settir upp. Í stuttu máli eftirfarandi:
1. Lönd mega ekki hafa meiri en ákveðinn halla á ríkissjóð í ákveðinn tíma, annars fjársektir
2. Lönd mega ekki hafa meiri en ákveðna verðbólgu í ákveðinn tíma, annars fjársektir
3. Lönd mega ekki hafa meiri en ákveðna skuldsetningu sem hlutfall af þjóðarframleiðslu
Án þess að slíkar reglur væru til myndi Evran einfaldlega ekki ganga upp til lengdar. Árið 2001 þegar Portúgal var að vinna sig uppúr kreppu og eyddi talsverðum opinberum fjármunum í að komast út úr henni, brutu þeir skilmálana og þurfu að minnka halla og greiða sektir. Hér kemur svo hluti vandans: Þegar ég var úti í Frakklandi voru Frakkar og Þjóðverjar einmitt við það að brjóta þessa skilmála, en þegar kom að þessum "kjarna löndum" þá allt í einu áttu reglurnar ekki lengur við.
Fyrir kreppu og aldeilis í dag eru þessar reglur þverbrotnar í bak og fyrir. Löndin eru einfaldlega of ólík.
Þá að stöðugleikanum. Fart þú minntist á að við gætum búið við stöðugleika, t.d. í lánamálum, en ég tel að það hafi einmitt verið hluti af vandamálinu við hrunið. Þjóðir sem hefðu réttilega átt að vera með veikari gjaldmiðil og hærri vexti vegna hversu óskynsamlega þau voru að haga sér í ríkisfjármálum (t.d. Grikkland) gátu fengið endalaust lánað á evru vöxtum og fjármögnuðu þannig eyðslu sem átti alls ekki rétt á sér. Ég sé þetta ekki sem jákvæðan hlut. Gjaldmiðill þarf að endurspegla fjárhagslega heislu lands, annars munu alltaf myndast imbalances, sem ég tel að til lengri tíma valdi einmitt því öfuga, óstöðugleika.
Ég hræðist það hversu mikla trú menn setja á Evruna, ég held að hún væri mikið veikari í dag ef USA væri ekki að gera jafn stjarnfræðilega heimskulega hluti og þeir hafa verið að gera síðasta áratug í peningaprentun og fjárlagahalla.
Ég segi þetta ekki til þess að upphefja krónuna, kerfið hér er ekki að virka. Ég hallast samt að því að við séum betur sett með að breyta hlutum hér heima en taka upp evruna. Sama á í raun við um ESB, hér eru hlutirnir alls ekkert stórkostlegir, en ég tel okkur ekki betur sett inn ESB þrátt fyrir það.