Held það hafi sjaldan verið jafn erfitt að spá fyrir um sigurvegara HM eins og í ár. Ég hef þrisvar sinnum giskað á réttan sigurvegara fyrir HM síðan 1986, Brasilía 1994 og 2002 og Ítalía 2006
Í ár eru mörg lið sem eiga mjög svipaðan séns. Bestu liðin eru klárlega
Brasilía, Argentína, Spánn, Holland, England, Þýskaland, Ítalía og Frakkland. Ég held að Danir eigi eftir að detta út í riðlinum sínum. Afríkuþjóðirnar eru svo alltaf wildcard en ég held að þær hafi ekki skipulagið til að vinna HM. Ein eða tvær Afríkuþjóðir eiga hugsanlega eftir að komast í 8-liða úrslit en ekki lengra.
Brasilía eru alltaf sterkir og geta nánast alltaf unnið HM. Það er samt e-ð sem segir manni að þeir vinni ekki í ár og ég hugsa að þeir verði slegnir út í 8-liða úrslitum eða undanúrslitum. Ef þeir ná í úrslitaleikinn þá vinna þeir.
Ég held að
Argentína vinni ekki þrátt fyrir sterkan hóp og byggi ég það aðallega á þjálfaranum þeirra. Hef ekki trú á að Maradona sé sá taktíker sem þarf til að vinna HM. Ef einhver annar en Maradona væri þjálfari þá myndi ég spá þeim pottþétt í undanúrslit og jafnvel úrslitaleikinn.
Spánverjar eru gríðarlega sterkir og margir búast við þeim sterkum, sérstaklega eftir að þeir unnu sitt fyrsta stórmót á EM 2008. Spánn ætti samkvæmt öllu að fara inn í undanúrslit en ég held þeir vinni ekki.
Hollendingar eru með gríðarlega gott lið og með Sneijder og Robben funheita framarlega á miðjunni. Býst við að þeir detti út í 8-liða úrslitum en þeir gætu þó komist í undanúrslit.
England er liðið sem allir tala alltaf um fyrir HM. Í ár eru þeir sennilega með eitt af sínum sterkustu landsliðum í mörg ár og aldrei þessu vant eru þeir með sannan sigurvegara við stjórnvölinn, Fabio Capello. Ég held að hann sé akkúrat það sem Englendingum hefur vantað á stórmótum. England er ekki með sterkasta liðið á HM en ég ætla samt að spá því að þeir verði Heimsmeistarar og sú spá er að mestu byggð á því að Capello stjórnar þeim og setur upp leikina hvernig þeir eiga að spilast.
Þýska stálið (gamla klysjan) er ólíkindatól og alltaf til alls líklegt. Það hefur verið gaman að fylgjast með þeim síðan á HM 2006 eftir að Klinsmann breytti leikstíl þeirra í skemmtilegan sóknarbolta og Joachim Löw heldur sömu línu. Held samt að þá muni of mikið um Michael Ballack, sem er meiddur. Spái þeim i 8-liða úrslit og jafnvel undanúrslit ef allt gengur upp.
Heimsmeistarar Ítalíu eru líka ólíkindatól og geta unnið alla, en líka tapað fyrir öllum. Hef ekki trú á að þeir vinni HM tvisvar í röð. Sama spá og með Þýskaland.
Frakkland hafa verið slakir sóknarlega og ekki náð að skora nóg, það skiptir þó ekki öllu í HM en ég held að þeim verði refsað fyrir það í útsláttarkeppninni á móti sterkum sóknarliðum.
Það er alltaf gaman að spá í HM og sennilega mjög margir ósammála minni spá. Það eru góðar líkur á að ég hafi rangt fyrir mér, en það er gaman að spá í hlutina og rökræða þá.