Quote:
Forystuskipti eru forsenda trúverðugleikaTrúverðugleiki íslensks fjármála- og efnahagskerfis erlendis verður ekki endurreistur fyrr en skipt hefur verið um æðstu stjórnendur peninga- og efnahagsmála landsins, og stefnan sett á að ganga í Evrópusambandið og evrópska myntbandalagið. Þetta sagði hollensk-breski hagfræðiprófessorinn Willem H. Buiter í opnum fyrirlestri í Háskóla Íslands í gær, en Buiter er, ásamt Anne Sibert, höfundur umtalaðrar skýrslu um veikleika íslenska fjármálakerfisins, sem unnin var fyrir Landsbankann vorið 2008 en ekki birt opinberlega fyrr en eftir að kerfið hrundi í október.
Buiter hefur gegnt stöðu prófessors í hagfræði við háskólana í Princeton, Yale og Cambridge, verið aðalhagfræðingur evrópska þróunarbankans EBRD í Lundúnum og setið í vaxtaákvörðunarnefnd Englandsbanka. Í fyrirlestrinum í gær sagði Buiter sig lengi hafa verið áhugasaman um Ísland. Einmitt vegna þess hve mjög hann bæri hag lands og þjóðar fyrir brjósti kysi hann að tala tæpitungulaust um vandamálin sem við Íslendingum blöstu.
Um ástæður hrunsins sagði hann að bankarnir hefðu vaxið íslensku efnahagslífi algerlega yfir höfuð. Seðlabanki Íslands hefði aldrei með trúverðugum hætti getað verið lánveitandi til þrautarvara fyrir þessa ofvöxnu banka, sem störfuðu að mestu með aðrar myntir en þá einu sem íslenski seðlabankinn hafði peningaprentunarvald yfir. Því hafi hrunið verið óumflýjanlegt; það hafi aðeins verið spurning um hvenær að því kæmi. Alþjóðlega lánsfjárkreppan reyndist verða kveikjan að því þegar til kom, en rekstur bankanna hefði líka án hennar komist í þrot fyrr en síðar, á því teldi hann ekki nokkurn vafa.
Buiter sagði þessa þróun hafa opinberað „hrikaleg mistök" í stefnumótun peninga- og efnahagsmála hér á landi.
Það væri því „óskiljanlegt" að þeir sem höfuðábyrgðina bæru á stjórnun þessara mála – hann nefndi í því sambandi sérstaklega bankastjóra Seðlabanka Íslands, forsætis- og fjármálaráðherra – sætu enn sem fastast. Það sé einfaldlega útilokað að byggja upp trúverðugleika og traust á enduruppbyggingu fjármála- og efnahagskerfis Íslands nema þeir stjórnendur víki sem leyfðu fjármálakerfinu svo til eftirlits- og hömlulaust að þróast á þennan óheillavænlega veg.
Buiter benti á að trúverðugleiki á endurreisnarstarfinu hefði bein áhrif á kjörin á þeim lánum sem Íslendingum á annað borð stæðu til boða. Í ljósi þess hve gríðarháar upphæðir munu á næstu árum fara í að þjónusta hina erlendu skuldabyrði kynni bættur trúverðugleiki þannig að spara þjóðarbúinu stórfé. Quote:
Trúverðugleiki þurfi afsagnirGrundvöllur þess að Ísland öðlist trúverðugleika á ný og fái hagkvæm vaxtakjör á erlendum lánum er að sýna festu í hagstjórn og skipta um marga yfirmenn æðstu stofnana ríkisins. Þetta segir Katrín Ólafsdóttir, hagfræðikennari við Háskólann í Reykjavík.
Á föstudag sagðist fjármálaráðherra gera ráð fyrir að skuldir ríkissjóðs gætu numið um 1000 milljörðum eftir 3-4 ár. Katrín bendir á að mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sé nær 14-15 hundruð milljörðum og bendir á að trúverðugleiki Íslendinga sé ekki mikill um þessar mundir. Því þurfi ríkið hugsanlega að taka lán á óhagkvæmum vöxtum. Takist hins vegar að sýna trúverðugleika, að Ísland geti staðið við sínar skuldbindingar, sé hugsanlega hægt að endursemja um lánin og fá lægri vexti.
Á fyrirlestri Willems Buiters hér á landi talaði hann um vaxtaálag upp á 4-5% sem ríkið þarf að greiða aukalega vegna þess að trúverðugleikinn er enginn.
Erlendir fjárfestar hafa enga trú á íslenskum stjórnvöldum, seðlabanka og eftirlitsstofnunum.
Það að enn hafi enginn sagt af sér hvorki í ríkisstjórn, seðlabanka né annars staðar mun kosta þjóðarbúið tugi milljarða á ári í aukin vaxtagjöld.
Það er algjör forsenda þess að útlendingar öðlist smá traust aftur á Íslendingum að hér verið hreinsað til.
Ef við miðum við tölu IMF um að skuldastaða ríkisins verði 160% af VLF og aukið vaxtaálag vegna vantrúar erlendra aðila á íslenskum stjórnvöldum sé 4% þá erum við að tala um hátt í 90 milljarða í aukin vaxtakostnað.
Það eru því miklir fjárhagslegir hagsmunir í því að koma núverandi stjórn í burt og fá hæft fólk.
Líklegast væri best að skipa tímabundna stjórn sem sæti í kannski 1/2 - 1 ár þar sem valdir væru hæfustu sérfræðingar innlendir sem erlendir til að takast á við þennan risavaxna vanda.
Svo væri hægt að kjósa.
Það er algjörlega nauðsynlegt að endurreisa trúverðugleika landsins en það verður ekki gert með sama fólki og ber ábyrgð á þessu hruni.
Það er alveg á hreinu.
En það er orðið nokkuð ljóst að ráðamenn munu ekki segja af sér ótilneyddir:
Quote:
Árni hyggst ekki segja af sérÁrni Mathiesen, fjármálaráðherra, ætlar ekki að segja af sér embætti í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis um skipan Þorsteins Davíðssonar í dómarastöðu við Héraðsdóm Norðurlands eystra fyrir rúmu ári síðan.
,,Herra foresti, ég hef ekki hugsað mér að segja af mér vegna þessa," sagði Árni í svari við fyrirspurn Árna Þórs Sigurðssonar, þingmanns Vinstri grænna, á Alþingi fyrr í dag.
,,Það er ekki þolinmæði í samfélaginu gagnvart svona stjórnsýslusubbuskap ráðamanna," sagði Árni Þór. Augljóst væri að settur dómsmálaráðherra hafi farið á svig við stjórnsýslulög og misboðið siðferðiskennd almennings. Árni Þór fullyrti að aldrei hafi annað staðið til en að skipa Þorstein í embættið.
Annars er alveg hlægilegt (eða kannski grátlegt) að lesa dagskrá þingsins í dag:
1. Óundirbúinn fyrirspurnatími.
2. Vátryggingastarfsemi (heildarlög, EES-reglur) 225. mál, lagafrumvarp viðskiptaráðherra. 1. umræða.
3. Greiðslur til líffæragjafa (heildarlög) 259. mál, lagafrumvarp félags- og tryggingamálaráðherra. 1. umræða.
4. Sala áfengis og tóbaks (sala léttvíns og bjórs) 37. mál, lagafrumvarp SKK. 1. umræða.
5. Olíugjald og kílómetragjald (endurgreiðsla gjalds) 40. mál, lagafrumvarp HöskÞ. 1. umræða.
6. Andstaða við eldflaugavarnakerfi í Austur-Evrópu 49. mál, þingsályktunartillaga
7. Tóbaksvarnir (reykherbergi á veitingastöðum) 57. mál, lagafrumvarp JM. 1. umræða.
8. Stjórnarskipunarlög (bráðabirgðalög, þingseta ráðherra) 58. mál, lagafrumvarp KHG. 1. umræða.
9. Prófessorsembætti á sviði byggðasafna og byggðafræða 59. mál, þingsályktunartillaga ÁJ. Fyrri umræða.
10. Skipafriðunarsjóður 60. mál, þingsályktunartillaga MS. Fyrri umræða.
11. Áhrif markaðsvæðingar á samfélagsþjónustu 66. mál, þingsályktunartillaga ÖJ. Fyrri umræða.
12. Umferðarlög (forgangsakreinar) 93. mál, lagafrumvarp
Það mætti kannski benda ráðamönnum á að efnahagskerfið hrundi til grunna og það eru kannski mikilvægari mál á dagskrá en ofangreind mál?
Ekki furða að virðing Alþingis sé orðin að engu.
Við erum stödd í leikhúsi fáránleikans.