Ég er líklega búinnn að gera grín að honum
Ingimari vini mínum í sléttan áratug út af BMW eigninni hans og oft höfum við gert okkur glaðan dag um að ræða kosti og galla framhjóla og afturhjóladrifs. Þið getið því ímyndað ykkur hvað hann varð glaður þegar ég tók þennan forláta 750i upp í
Toyotu sem ég átti (og já ég fékk smápening með...).
Bíllinn sem umræðir er dökkgrænn, 750i (e38) framleiddur 10/1997 og fyrst skráður úti 26.11.1997 og kom til Íslands 17.03.2003 þá keyrður um 158.000km. Síðan þá er búið að bæta tæpum 100.000km við (stendur í 252.000km) og hann er búinn að vera skráður á 14 aðila, þar af 8 fjármögnunarfyrirtæki.
Þetta virðist vera alveg sæmilega útbúinn sjöa með síma (framí og afturí), pjattljós afturí, DSC, lúgu, leðri (grænt), aðgerðastýri, ECC (tvískipt), 17" felgur, streptronic 5 þrepa sjálfskipting, hiti í fram og aftursætum, rafmagn í framsætum, Xenon ljós, þokuljós, cruise control, vasaljósi í hanskahólfi, dráttarbúnaði og ýmsu öðru nauðsynlegu dóti. Aðalmálið í þessum bíl er samt í mínum huga v12 vélin sem á að skila 326hp og 490Nm í togi. Bara eitt orð um það að segja: "Vá!".
Hann var reyndar ekki búinn að vera í minni eigu nema nokkra klukkutíma þegar vandræðin byrjuðu, þjófavörnin fór í gang í tíma og ótíma. Líklega var hann bara að væla yfir því að ég skyldi ekki Þýsku nógu vel eða hann saknaði fyrri eigenda sinna. Raunin varð hins vegar sú að sparað hafði verið til rafgeymakaupa í desember 2005 og var 95Ah geymirinn orðinn slappur (innan við 75% af uppgefnum straum) og var honum skipt út fyrir 110Ah geymi. CD Changer portið á kassettutækinu reyndist svo líka bilað þegar það átti að tengja Dension Ice>Link við til að hooka upp iPod þannig að því var hent og sett Alpina iPod-ready tæki í staðinn (
CDE-9881).
Bíllinn var á Akureyri þegar ég keypti hann og á leiðinni suður s.l. sunnudag var frekar slæmt færi á Öxnadalsheiðinni og lenti ég í því að þurfa að stoppa vegna blindu þegar snjóruðningstæki mætti mér á leiðinni upp í brattasta kaflanum. Þá dugðu ónelgdu vetrardekkin ekki, enda ekki stætt í brekkunni, og það tók mig talsverðan tíma og lægni að koma mér af stað aftur. Í stuttu máli: Steptronic í 3ja þrep og DSC af og litla táin á bensíngjöfina, þetta hafðist með þolinmæðinni. Eyðslan á leiðinni var samt alveg ágæt eða 10,4L/100km sem er magnað fyrir tveggja tonna bíl með svona vél, enda hægt að krúsa á 1500rpm á 100km/klst sem telst ekki slæmt. Ég er sannfærður um að það má ná henni neðar þegar maður lærir inn á bíl/vél/skiptingu.
Hvernig er hann svo m.v. aðra bíla sem ég hef átt? Tja, hann drífur ekki jafnmikið og Toyota Land Cruiser 80 á 44" dekkjum (döh), sætin eru ekki alveg jafnþægileg og í Volvo S60 (amk framí en betri afturí!) en ég hef aldrei átt bíl áður sem er yfir 200 hp hvað þá yfir 300hp! Það sem er hins vegar svo skemmtilegt við þennan bíl er að stundum er hann svo ógurlega ljúfur og bara mjög gaman að krúsa á 50km/klst en svo fellur gríman annað slagið og geðsjúklingurinn losnar úr spennitreyjunni ef maður stígur of fast á bensíngjöfina.
Ég tók fyrstu bónsession mína í tvö ár í gærkvöldið, enda á þessi bíll skilið að fá bón (og eigandinn Thule) og því myndatakan ekki alveg komin af stað ennþá en þessar myndir tók ég þegar ég kom frá Akureyri á sunnudaginn frá Akureyri út á Gróttu:
Það á svo að taka þriftörn um helgina og þá detta vonandi fleiri myndir inn á
vefinn.
Ég greiddi svo félagsgjaldið í
BMWKraft í dag og aldrei að vita nema maður komi til með að eiga þennan bíl eitthvað áfram...