bebecar wrote:
Ég hef bara enga trú...
Ástandið er þannig að maður þarf að sjá eitthvað gerast held ég áður maður getur leyft sér að vonast eftir betri tímum.
Spara, spara og spara er eina vitið í núverandi stöðu...
Það er nefnilega málið, bjartsýnin kemur okkur aðeins hálfa leið. Til að það verði einhver viðsnúningur þá þarf eitthvað að liggja þar á bakvið. Það er ekki endalaust hægt að spila á ofurvæntingar. Það er bara nóg að skoða tölur frá Seðlabankanum íslenska um stöðu þjóðarbúsins til að sjá hversu viðkvæmt ástandið er og það þarf ekki mikið til að allt hrynji. Það hafa nokkrar þjóðir farið mjög illa út úr því að ofurskuldsetja sig eins og Íslendingar hafa verið að gera.
Eins og staðan er núna þá er ekkert sem bendir til viðsnúnings sama hvað einhverjir sérfræðingar babla um kauptækifæri o.s.frv.
Annars alltaf gaman að hlusta á þessa svokölluðu greiningaraðila, þeir eru búnir að vera að tala um kauptækifæri í nokkra mánuði núna, samt halda bréfin áfram að hrynja. Núna segja þeir að ástandið batni í haust, seinasta haust þá sögðu þeir að það ætti að batna með vorinu...
Sjálfur les ég yfirleitt þessar greiningar sem íslensku bankarnir eru að senda frá sér og ég verð nú að segja að manni finnst þeir ansi oft vera mun bjartsýnari en efni gefa til kynna. Álit mitt á þeim hefur allavega snarminnkað. Ég var að renna yfir gamlar greiningar frá Glitni og sumar þessar spár þeirra eru svo út úr kortinu að maður hlær bara. Auðvitað er auðvelt að vera vitur eftir á og ómögulegt að spá fyrir um framtíðina en það er nú lágmark að spárnar byggi á einhverju haldbæru.
Set inn nokkrar gamlar spár frá þeim:
Morgunkorn Glitnis 5. okt. 2007 wrote:
Afkomuspá: Spáum 32% hækkun í ár og 30% á næsta ári Við reiknum með að íslenski hlutabréfamarkaðurinn sýni hægfara batamerki á næstu mánuðum eftir erfiðan tíma undanfarið. Við spáum 6% hækkun úrvalsvísitölunnar á 4. ársfjórðungi og að hækkunin yfir árið verði 32%. Þetta er dágóð hækkun í alþjóðlegum samanburði og meiri hækkun en var hér á landi á síðasta ári en úrvalsvísitalan hækkaði um 15,8% yfir árið 2006. Erfitt ástand á fjármálamörkuðum og ekki síst sá lausafjárskortur sem verið hefur á heimsmarkaði undanfarið hefur valdið því að við höfum lækkað spá okkar um hækkun vístölunnar yfir árið. Áður spáðum við 45% hækkun á árinu.
Viðunandi hagvöxtur, minni áhættufælni og lækkun vaxta
Framundan er tímabil á innlendum hlutabréfamarkaði þar sem lækkandi vextir ásamt aukinni áhættusækni og tiltölulega hagfelldu efnahagsástandi innanlands sem utan munu vegast á við áhrifin af nokkuð lakari afkomu félaganna á markaðinum. Um er að ræða áhugaverðan tíma þar sem hræðsla fjárfesta hefur dregið virði einstakra félaga niður á undanförnum vikum og nægjanlega lágt til að skapa kauptækifæri fyrir fjárfesta sem eru til í að taka nokkra áhættu til skemmri tíma. Við reiknum með því að þegar betri uppgjör líta dagsins ljós á næsta ári muni batinn á innlendum hlutabréfamarkaði vera nokkuð hraður. Spáum við 30% hækkun Úrvalsvísitölunnar yfir næsta ár.
Morgunkorn Glitnis 10. okt 2007 wrote:
Um er að ræða áhugaverðan tíma þar sem hræðsla fjárfesta hefur dregið virði einstakra félaga nokkuð langt niður á þriðja fjórðungi og nægjanlega lágt til að skapa kauptækifæri fyrir fjárfesta sem eru til í að taka nokkra áhættu til skemmri tíma.
Morgunkorn Glitnis 11. okt 2007 wrote:
Dollarinn í 69 kr. og evran í 96 kr. í árslok 2008
Við teljum ekki ástæðu að ætla að stórir gjalddagar krónubréfa á 1. ársfjórðungi næsta árs, þegar 100 ma.kr. falla á gjalddaga, muni hafa teljanleg áhrif á gengi krónunnar, enda vaxtamunur þá enn mikill og gjaldeyrismarkaðurinn þá þegar búinn að taka tillit til þessa. Við spáum því að krónan styrkist út árið og haldist sterk fram á vormánuði næsta árs en gengi krónu lækki þegar stýrivaxtalækkunarferli Seðlabankans færist nær í tíma. Gerum við ráð fyrir að gengi krónunnar standi lægst í kringum áramótin 2008 og 2009 og að dollarinn standi þá í um 69 krónum og evran í tæplega 96 krónum.
Morgunkorn Glitnis 26. okt. 2007 wrote:
Kauptækifæri í Kaupþingi
Við höldum 6 mánaða markgengi okkar á Kaupþingi óbreyttu í 1.320 kr. á hlut og ráðleggjum fjárfestum að kaupa hlutabréf Kaupþings. Við gerum ráð fyrir því að yfirtakan á NIBC muni ganga í gegn og skila virðisauka til hluthafa. Hátt álag á fjármögnun bankans nú um mundir veldur óvissu en við gerum ráð fyrir að það lækki á næstunni eins og áður segir. (GMA)
Þetta er bara nokkur dæmi af mörgum. Maður spyr sig hvort þeir haldi að það gildi einhver önnur lögmál hér á landi.
Ég veit bara það að ég myndi ekki byggja kaup á hlutabréfum á spám frá greiningadeildunum íslensku, ég gæti alveg eins bara lesið stjörnuspána...
Ps. Núna kl. 12:55 stendur ISK í 161,2 og úrvalsvísitalan í 4479.