Ég ákvað að mig langaði að stuðla að frekari virkni hérna á kraftinum, þannig ég ætla að búa til þráð um E39 sem ég verslaði um daginn.
Fyrst langar mig að sýna ykkur E34 sem ég standsetti í sumar.
Hann var verslaður af strák í Garðinum sem heitir Árni, frá manni sem átti hann á Vopnafirði í 19 ár.
Hann hafði staðið í 4-5 ár með bilaða skiptingu áður en Árni kaupir hann. Árni setur nýja skiptingu í hann og kemur í gang, en ekki löglega á götuna.
Ég kaupi hann óskoðaðann og bremsulausann, kom honum athugasemdarlaust í gegnum skoðun, skipti m.a. um bremsur hringinn, dempara, brotin ljós og fleira.
Seldi hann síðan 15 ára strák frá Hellu (eða Hvolsvelli) sem ætlar að halda áfram að gera hann upp.


Annars keypti ég þennan 520i fyrir nokkrum vikum síðan.
Ekki mikið um hann að segja annað en að ég datt niður á gott eintak af bíl þegar ég skoðaði hann.
Hann er titlaður "Exclusive edition" í fæðingarvottorðinu, sem mér skilst af vægu internetvafri að fylgi Nappa leður, þó svo að ég selji það ekki dýrara en ég keypti það þá er leðrið í honum allavega ansi mjúkt, og með smátíglóttum saum í bland við slétta leðrið.
Plönin eru aðallega að viðhalda bílnum og græja það sem betur mætti standa. Ef ég á hann nógu lengi mun ég versla felgur á hann fyrir næsta sumar, en það kemur í ljós þar sem ég er í flugnámi og kostnaðurinn þar gæti kallað á svolítil fjárútlát.
Þegar ég kaupi bílinn er hann allur haugskítugur að innan sem utan, og ekki arða af bónhúð á honum.
Þetta er eina myndin sem ég tók af honum áður en ég þreif hann hátt og lágt.

Hérna er ég búinn að þrífa hann allan (og bóna, minnir mig). Myndin finnst mér skemmtileg afþví mér finnst þetta veður fara mjög vel með lúkkinu á bílnum í heild.

Það hrjáði hann klassísk E39 veiki; Það vantaði í hann insertin í neðra grillið, ásamt því að lokið yfir dráttaraugað vantaði, sem angraði mig rosalega.
Þannig það var það fyrsta sem ég gerði á eftir þrifum.



Þetta er nýjasta myndin sem ég á af bílnum, þarna er ég búinn að kaupa nýja númeraplötur og ramma, massa framljósin og fleira smotterí.

Svo skipti ég um spyrnufóðringu að aftan og lagaði airbag ljósið sem logaði í mælaborðinu. Þannig nú er hann ljóslaus í mælaborði, sem mér þykir skemmtilegt á 14 ára gömlum BMW eknum 207.xxx km.

To-do listinn hljóðar svo:
- Útvarpið er ólæsilega pixlað, sem fær að sitja á hakanum því ég get notað geisladiska í bili.
Planið er að græja AUX í bílinn á einhvern hátt. Hugmyndir að útfærslu vel þegnar.
- Bera á leðrið.
- Það er dæld á húddinu á bakvið nýrun, þyrfti sennilega nýtt húdd og það er ekki framarlega í forgangsröðinni.
- Gera við topplúguna sem opnast bara til hálfs í tilt-stillingu.
- Halda áfram að bóna og sjæna reglulega. Halda lífi í góðum E39.
Vonandi bætist sem fæst við þennan lista en þetta er jú gamall BMW þannig það er alltaf eitthvað.