Mæting
Mæting er kl 19:20 niðrá Hafnarbakka. Menn eru helst beðnir um að keyra inn á Hafnarbakkaplanið að aftanverðu, þ.e. ef menn koma keyrandi Sæbrautina í átt að bænum, að þá beygja útaf til hægri á Faxagötu, keyra Faxagötuna inn á Austurbakkann og stilla sér svo í tvöfalda röð á Miðbakkanum. Ef mikill fjöldi fólks verður, verður Austurbakkinn einnig notaður til að raða upp bílum í raðir.
Akstur
Farið verður frá miðbænum kl 20:00 og Sæbrautin keyrð á hægri akrein í lögreglufylgd. Fólk er vinsamlegast beðið um að halda sig á hægri akrein og ekki vera að reyna að taka framúr á vinstri. Vinstri akrein skal vera auð fyrir almenna umferð.
Þessi hópakstur mun keyra út Sæbrautina og allt að brúnni í Ártúnsbrekkunni (Miklabraut/Vesturlandsvegur). Þar munum við keyra upp á brúna og niður aftur í átt að bænum. Þetta er gert að beiðni lögreglu þar sem einfalt er að snúa öllum bifreiðum við þarna vegna slaufukerfis sem brúin býður upp á.
Sæbrautin verður keyrð í átt að miðbænum aftur. Beygt verður til vinstri á ljósunum hjá Nýherja, þ.e. suður á Kringlumýrabraut. Þaðan verður farið til hægri vestur Borgartúnið þar sem fólk getur lagt allt frá Heimilistækjaplaninu niður að Nýherjaplani og hjá fyrirtækjum þar í kring. Við ætlum að biðja fólk um að byrja að leggja á Heimilistækjaplaninu og þegar það fyllist að færa sig svo í áttina að Nýherja og þar.
STRANGLEGA BANNAÐ er að leggja upp á eyjum eða köntum þarna í kring og eru menn vinsamlegast beðnir um að virða þessar óskir lögreglu og leggja bifreiðum sínum í þau stæði sem þarna eru.
Kerti
Bílanaust hafa verið svo rausnlegir að þeir hafa skaffað okkur kerti fyrir mannskapinn og verður þeim dreift frá Heimilistækjaplaninu. Munið þó að mæta með kveikjara til að kveikja á kertunum.
Athöfn
Eftir að menn hafa lagt og náð í sín kerti, verður labbað upp að Sæbrautinni þar sem kveikt verður á kertum með ca 1-2 m millibili. Hugmyndin er að reyna að ná langri röð af standandi fólki og kertum.
Ef það eru einhverjir sem komast ekki að einhverri ástæðu í hópaksturinn, geta þeir mætt og lagt við Sæbrautina og tekið þátt í athöfninni með okkur. Menn eru vinsamlegast beðnir um að mæta við Sæbrautina um 20:30, þar sem kveikt verður á kertum einhverntíman á milli 20:30 og 21:00, fer allt eftir því hvenær röðin mætir á svæðið.
Nokkrir punktar sem vert er að koma inn á vegna tilmæla lögreglu:
Ökutæki sem taka þátt í þessu með okkur skulu vera skráð og í fullkomnu ásigkomulagi.
Menn eru beðnir að sýna þessum atburði virðingu og haga sér eins og fólk. Þetta er ekki tækifæri fyrir óþroskaða einstaklinga til að vera með einhverja sýniþörf eða stæla, og ætlum við vinsamlegast að biðja menn að halda sig heima hjá sér ef þeir telja sig ekki geta hagað sér almennilega. Þetta er háalvarlegt mál, þarna verða fréttamenn og aðstandendur fólks sem látið hefur lífið eða slasast illa í bílslysum og við skulum sýna þeim þá virðingu sem þau eiga skilið.
Eftir að athöfn lýkur ætla ég að biðja fólk að fara varlega, spenna beltin og keyra rólega í burtu. Okkur liggur ekki lífið á og við skulum sýna fólki tillitsemi ef einhver traffík myndast þarna.
Það er mín einlæga ósk að menn sjái sér fært að mæta og nú þegar hefur myndast ótrúleg samstaða á milli mótorsportáhugamanna hér á landi. Það gerist ekkert ef við sitjum öll heima tuðandi um breytingar. Hérna er tækfæri fyrir alla að taka þátt.
Munið að klæða ykkur vel, það gæti orðið kalt og við hlökkum til að sjá sem flesta annaðkvöld.