Þar sem ég var að ljúka því ferli að flytja inn og sækja bíl sjálfur frá Evrópu þá langaði mig að deila reynslunni af þessum viðskiptum á meðan þau eru í fersku minni.
Tveir möguleikar eru í stöðunni þegar kemur að bílainnflutningi: Annars vegar að láta miðlara sjá um verkið eða gera þetta sjálfur.
Kostirnir við að láta miðlara sjá um viðskiptin eru þeir að miðlaranir hafa gert þetta áður og þú einfaldlega sækir bílinn hér á íslandi.
Kostirnir við það að gera þetta sjálfur eru þeir helstir að það ferli er mun skemmtilegra, þú færð að keyra bílinn sjálfur erlendis og það er - samkvæmt mínum útreikingum - töluvert ódýrara ef þú nærð góðu tilboði á flugmiðum.
Þitt er valið.
1. Finna bíl
Flestir nota mobile.de til að finna þann bíl sem þeirra eru að leita að. Mjög margir sölubílar í Evrópu eru að koma af rekstrarleigu og í þeim tilfellum má endurgreiða VSK ef þeir eru fluttir til Íslands. Þessir bílar eru merktir "MwSt. ausweisbar". Reiknivélin á BMWKraftur hjálpar síðan við að finna endanlegt verð á bílnum þegar hann er kominn heim.
Eitt sem ber að varast eru bílar sem eru á óvanlega góðu verði. Mörg dæmi eru um það að svindlarar auglýsa bíla á fáranlega lágum verðum til þess að koma á samskiptum við möguleg fórnarlömb. Til að sía út þessa "seljendur" er best að fylgja eftirfarandi reglum:
1. Staðfestið að svipaðir bílar og sá sem þú ert að athuga séu á álíka verði.
2. Einungis kaupa bíla af bílasölum, ekki af einstaklingum. Jafnvel þótt langflestir seljendur séu traustins verðir þá er óþarfi að taka minnstu áhættu.
2. Athuga bíl
Ólíkt því sem gefið hefur verið í skin þá tala langflestir starfsmenn bílasalanna góða ensku. Hringdu og spurðu það sem þú vilt vita um bílinn: Hefur hann þurft á meiriháttar viðgerð að halda? Eru einhverjir gallar á bílnum sem hann vill nefna? Er hann reyklaus? Hvað hafa verið margir eigendur? O.s.frv. Að lokum geturðu svo spurt hvað hægt sé að fá bílinn á. Ekki búast samt við mikilli lækkun.
Ef þér líst vel á þetta taktu þá niður nafn starfsmannsins og spurðu hvort þeir sjái ekki örugglega um útbúa "Export documents" og að útvega "rautt númer" og tryggingu ef af sölu verður. Þetta skref er mjög mikilvægt. Ef þeir bjóðast ekki til að sjá um þetta þá er betra að sleppa þessu.
Til að tryggja sig alveg er ekki verra að kanna aðeins bílasöluna og athuga hvort hún sé trúverðug. Í mínu tilfelli hringdi ég í BMW umboðið í sömu borg og spurðist fyrir.
Varðandi flutning athugaðu hvað er laust í skipunum hjá skipafélögunum þremur. Ég valdi Atlantsskip sem sigla meðal annars frá Hollandi. Fáðu nákvæmar leiðbeiningar um hvernig keyra á til hafnarinnar og símanúmer fyrirtækisins sem sér um umskipunina erlendis.
3. Kaupa bíl
Hringdu aftur í sölumanninn og segðu að þú ætlir að kaupa bílinn. Sendu netpóst til hans með staðfestingunni og fáðu aftur staðfestingu frá honum varðandi "export documents" og bílnúmerið og trygginguna. Spurðu hvað það ferli tekur langan tíma. Líklega þarftu strax upp úr þessu að senda 20% af erlendu verði bílsins sem útborgun. Eitt sem ber að varast varðandi það er að SWIFT bankasendingar á milli landa taka 2-3 daga. Hægt er að bíðja um hraðsendingu en hún tekur samt um það bil 12 tíma.
Persónulega kaus ég að greiða lokagreiðsluna líka í gegnum SWIFT en ekki með seðlum. Ástæðan var einfaldlega sú að mér hraus hugur við því að ferðast með of stórar upphæðir vafðar um mig ásamt því að seðlagengi bankanna, það verð sem þú borgar fyrir evru seðla, er töluvert hærra en venjulegt sölugengi sem þú færð við SWIFT greiðslu. Á moti kemur auðvitað að þú verður líklega að millifæra áður en þú kemur til bílasölunnar.
Áður en þú ferð út láttu þá skipafélagið vita að þú ætlir að koma með bíl í skip.
4. Sækja bíl.
Pantaðu hótel nálægt bílasalanum og flug sem hentar. Taktu með þér ökuskirteini, vegabréf að þann pening í seðlum sem bílasalinn sagði að þyrfti vegna umskráningar, bílnúmersins og tryggingarinnar. Athugaðu með lestarferðir frá höfninni til flugvallarins.
Þegar þú kemur síðan til bílasalans þá fylgirðu leiðbeiningum hans um ferlið og þú ættir að fá lyklana í hendur annaðhvort samdægurs eða daginn eftir. Þá er bara að setjast upp í bílinn og keyra hann til hafnarinnar eftir þeim krókaleiðum sem þig listir.
Passaðu þig á því að biðja flutningsfyrirtækið erlendis að senda tollskjölin til bílasalans aftur með ábyrgðar- eða flýtipósti ef þú hefur keypt virðisaukabíl. Einhverjum vikum seinna á bílasalinn að millifæra til þín skattinum.
5. Tollafgreiða bíl
Á íslandi þegar farmbréfið frá flutningsfyrirtækinu er komið þá ferð þú með bréfið ásamt eignaskiptaskjalinu frá bílasalanum til Umferðastofu til að ganga frá skráningu. Við uppskipun er best að biðja skipafyrirtækið um að gera tollskýrslu og bíða síðan eftir að tollafgreiðslu líkur.
Þegar því ferli er lokið þarf að fara upp á skráningarstöð, fá þar lánuð rauð númer til flutnings og keyra bílinn í skoðun.
Voila bílinn er tilbúin.
