Jæja, fengum smá styrkingu í dag. GVT í ekki nema 172. Hefði krónan ekki styrkst á dögum eins og þessum þá veit ég ekki hvenær hún ætti að styrkjast. Allir markaðir á blússandi siglingu upp á við.
En af hverju rýkur allt upp núna í dag? Jú, því Bandaríkin eru komin í hóp með öðrum sósíalistaríkjum.
Nú sem sagt á bandaríska ríkið (skattgreiðendur) að taka á sig klúður Wall Street. Sem sagt þetta er sósíalismi sem einungis á við Wall Street. Main Street bjargar Wall Street. Dásamlegt kerfi.
Það er verið að tala um það að bandaríska ríkið kaupi verðlausa ruslpappíra frá bönkum fyrir fleiri hundruð milljarða dollara (þegar allt kemur til alls verður þetta líklegast yfir billjón dollara, 90.000.000.000.000 ISK). Þennan reikning á sem sagt að senda á bandaríska skattgreiðendur.
Þetta fordæmi sem er verið að gefa með þessu er hreint út sagt skelfilegt. Það er verið að segja það að fjárfestingabankar og aðrir gamblarar geti haldið áfram að taka áhættu og missa sig í græðgi því ef illa fer þá koma skattgreiðendur til bjargar! Hagnaðurinn er einkavæddur en tapið almannavætt. Ef ég væri bandarískur skattgreiðandi þá væri ég alveg brjálaður að það sé verið að nota peninga skattgreiðenda til að bjarga fjárfestingabönkum á Wall Street sem skitu á sig í stað þess að leyfa eðlilegum markaðslögmálum að ráða og láta þá fara á hausinn sem eiga það skilið.
Og bara til að sýna hversu mikil örvænting ríkir hjá yfirvöldum þá dældu seðlabankar Bandaríkjanna og fleiri landa næstum því 250 milljörðum dollara inn í kerfið í gær. Bara á einum degi! Og ekki bara það, heldur er líka búið að banna skortsölu sem hefur hingað til verið eðlilegur hluti frjálsra markaða. Það er verið að rústa frjálsa markaðnum með öllum þessum reddingum til handa Wall Street.
En hvaða áhrif mun þessa risabjörgunaraðgerð hafa? Jú líklega fáum við uppsveiflu í einhvern tíma en svo áttar markaðurinn sig væntanlega á því að þetta er kannski ekkert svo svakalega jákvætt að ríkið þurfi að leggjast í þessar risabjörgunaraðgerðir. Bandaríska ríkið sem er rekið með methalla og skuldaði nóg fyrir þarf nú að leggjast í enn fleiri lántökur til að fjármagna allt þetta klúður. Þetta getur þýtt það að bandarísk ríkisbréf eigi það á hættu að matseinkunn þeirra verði lækkuð og ef það gerist þá erum við að tala um mjög alvarlega krísu. Því þetta myndi valda því að vextir myndu hækka því fjárfestar myndu forðast bandarísk ríkisbréf og þetta myndi hafa mjög afdrifaríkar afleiðingar fyrir dollarann.
Pressure building on U.S. debt rating: S&P
Það er því spurning hversu lengi þessi uppsveifla mun standa, því það eru takmörk á því hvað bandaríska ríkið getur gengið langt í því að bjarga fallandi fjármálafyrirtækjum.
Ég er þó ekki að segja að ríkið eigi bara algjörlega að láta markaðinn sjá um sig sjálfan, ríkið á auðvitað að reyna að milda hagsveiflurnar og sjá til þess að ekki sé allt í kalda koli. En hér erum við að tala um fjárfestingabanka sem hafa gjörsamlega misst sig í græðgi og tekið alltof mikla áhættu og sitja því upp með þvílíkt magn verðlausra pappíra. Það að ríkið sé að koma þessum aðilum til bjargar á kostnað skattgreiðenda er ekkert annað en skandall.
Og svo ég haldi áfram tengdum pælingum (þó svo þær komi krónunni ekki beint við), þá er hér mynd fyrir þá sem hafa gaman að svona fjármálapælingum:
Þessi mynd sýnir hlutfall svokallaðra „level III“ eigna sem hlutfall af eigin fé þessara fyrirtækja.
Hvað eru „level III“ eignir? Jú, þetta eru illseljanlegar eignir sem eru metnar samkvæmt reiknimódelum. Markaðsvirði eignanna er líklega bara brot af nafnvirði þeirra. Og eins og sést á þessari mynd þá er hlutfall þessara eigna allt upp í 250% af eigin fé þessara fjárfestingabanka. Þetta þýðir það að þessar eignir þurfa ekki að missa nema 40% af nafnverði sínu til að þurrka upp allt eigið fé. Og það er mjög ólíklegt að þessar eignir seljist á 60 sent per dollar. Merril Lynch neyddist til að selja svona eignir á 22 sent per dollar.
Nú hafa þrír af þessum bönkum annað hvort verið yfirteknir (Bear Stearn og Merril Lynch) eða eru farnir á hausinn (Lehman Brothers).
Goldman Sachs og Morgan Stanley eru líklegast tæknilega gjaldþrota.
En nú á ríkið að hlaupa til og bjarga þessum bönkum frá eigin klúðri og ef af þessu frumvarpi um þessar risabjörgunaraðgerðir verður þá eiga bankarnir að geta losað sig við þessa ruslpappíra á kostanð skattgreiðenda!
Já það hlýtur að vera ljúft að vera bankastjóri banka sem hirðir allan hagnaðinn á uppgangstímum en svo má almenningur eiga tapið þegar illa viðrar...