GVT í 177,4.
Þetta er alveg skelfilegt en var nú nokkuð fyrirsjáanlegt ef maður bara skoðar aðeins staðreyndir málsins.
Ísland er skuldugasta land í heimi, þetta hefur reddast hingað til vegna þess að við höfum alltaf getað látið boltann rúllað áfram, þ.e.a.s. fengið ný lán til að endurfjármagna okkur. Núna er hins vegar alvarlegasta fjármálakrísa síðan í kreppunni miklu og það er enginn sem vill lána okkur núna (alveg eins og það lánar enginn fyrirtæki sem er skuldugt upp fyrir haus). Bankarnir eru með einhverja fleiri þúsund milljarða á gjalddaga á næstu árum og ef þeir fá ekki ný erlend lán á móti þeim sem eru á gjalddaga þá þurfa þeir annað hvort að selja erlendar eignir eða selja krónur í massvís til að kaupa gjaldeyrir til að borga lánin sín og þetta hefur auðvitað það í för með sér að krónan hrynur.
Og svo hefur náttúrulega enginn áhuga á gjaldeyri eins og krónunni í svona ástandi eins og er í heiminum í dag. Þannig að það er bara alls ekki fjarlægur möguleiki að gengisvísitalan fari upp fyrir 200.
Ég veit að Geir segir að allt sé í góðu lagi og sömuleiðis greiningadeildir bankanna en ef þið bara skoðið málinn aðeins sjálfir þá sjáið þið að sú glansmynd sem hefur verið teiknuð af íslenska „efnahagsundrinu“ er kannski ekki eins glæsileg og af er látið. Ástandið er kannski ekki svo slæmt akkúrat í augnablikinu en þá á eftir að versna til muna.
Verðbólgan á áfram eftir að verða há, atvinnuleysi að aukast, ofan á þetta bætis að öll lán fólks munu stórhækka (bæði erlend lán sem og verðtryggð). Þannig að á sama tíma og greiðslubyrðin er að stóraukast þá er fólk jafnvel að missa vinnuna og ef það heldur vinnunni sinni þá er kaupmáttur launanna að stórminnka.
Við getum því búist við fjöldagjaldþrotum bæði fyrirtækja og einstaklinga næstu misseri.
Þetta þýðir það að bankarnir munu þurfa að afskrifa mikið af lánum sínum á sama tíma og fjármagnsmarkaðir eru lokaðir og því verða næstu misseri erfið fyrir bankanna. En sem betur fer eru eiginfjárhlutföll íslensku bankanna mjög góð miðað við aðra erlenda banka. Aðal vandinn er að erlendir fjármagnsmarkaðir eru lokaðir og það er auðvitað mjög slæmt fyrir banka sem reiða sig á erlenda fjármögnun.
Og ef fólk hefur áhuga á að skoða sjálft t.d. stöðu þjóðarbúsins gagnvart útlöndum þá getur það nálgast þær upplýsingar t.d.
hér.
Þarna getið þið t.d. séð að heildarskuldir þjóðarbúsins eru yfir 10.000 milljarðar króna en eignirnar eru um 8000 milljarðar króna. Nettó staðan er því -2000 milljarðar króna. Þetta þýðir það að hvert mannsbarn á Íslandi er með neikvæða nettóstöðu gagnvart útlöndum upp á tæpa 7 milljónir. Athugið að þetta er gagnvart útlöndum, því eru innlendar eignir og skuldir ekki teknar með.
Þannig að ef við fáum ekki erlent fjármagn á næstunni til að geta látið boltann rúlla áfram þá má segja að við séum í svolítið vondum málum vægast sagt.
En við skulum samt ekki örvænta, það er ljós í enda ganganna, göngin eru bara frekar löng.