Eurotrip 2005, Paris –> Marseille –> Barcelona –> Bordeaux –> Paris
Okkur hafði langað mjög lengi að keyra svolítið um Frakkland og jafnvel fara alla leiðina til Spánar. Það kom gott tækifæri þar-síðustu helgi þar sem að Guðrún var í viku fríi og ég gat tekið mér frí. Við lögðum því af stað með litlum fyrirvara í 2500 km ferð á BMW-inum. Það er gaman að segja frá því að við erum búin að keyra bílinn ~ 42.000 km síðan við sóttum hann til Frakklands í lok 2003.
Marseille
Tjah, í rauninni ekki Marseille heldur lítill bær 40 km í austur frá Marseille. Okkur var boðið í heimsókn til fransks vinar okkar, á vínbúgarðinn sem fjölskyldan hans á, rétt við Miðjarðarhafið. Við lögðum af stað til þeirra uppúr hádegi á laugardaginn og vorum komin um kvöldmatarleytið. Það er ótrúlega fallegt þarna, þetta er suður-Frakkland alveg eins og í myndunum með gömlu húsunum, flest byggð fyrir yfir 50-100 árum, og litlum vínbúgörðum bókstaflega út um allt. Landið hans er 5 hektarar.
Við gistum hjá þeim 2 nætur, borðuðum góðan mat og drukkum gott rauðvín. Hann gaf okkur að smakka úr kjallaranum hjá sér flösku frá 1991 sem var alveg mögnuð. Svo á mánudaginn kom annar franskur kunningi okkar við hjá honum í heimsókn. Hann kom með heimatilbúna osta sem fjölskyldan hans framleiðir. Við vorum því eins frönsk og hægt var þessa helgi. Við hjálpuðum meira að segja aðeins til við að róta upp í moldinni og losa vínviðinn við arfa á sunnudeginum.
Barcelona
Á mánudeginum keyrðum við svo til Barcelona og keyrðum einmitt í leiðinni í gegnum Marseille. Það var búið að vara okkur við að skilja hvergi bílinn eftir því þessi borg væri þekkt fyrir bílaþjófnað. Við stoppuðum því stutt og héldum áfram til Barcelona. Við vorum komin til Fanneyjar að ganga miðnætti. Íbúðin þeirra er mjög stór og við fengum heilt herbergi fyrir okkur.
Við vorum í 4 daga hjá vinkonu okkar og var tíminn vel nýttur til að labba um og skoða, fara á ströndina og borða góðan mat. Hún var í skólanum á daginn en á kvöldin var tíminn yfirleitt vel nýttur í spil, spjall og djamm. Við ætluðum í rauninni bara að vera 3 daga hjá henni en þetta var bara svo gaman að framlengdum um einn dag. Barcelona er falleg borg og það var virkilega gaman að hafa loksins skoðað hana betur.
Bordeaux
Á föstudeginum uppúr hádegi lögðum við svo af stað til Bordeaux. Eins og einhverjir vita þá er Bordeaux örfáa km frá Atlandshafinu svo við fórum í raun allt aðra leið tilbaka, nær vesturströnd Frakklands. Við vorum ekki búin að ákveða hvort við ætluðum að gista eða bara halda áfram til Parísar. Það er skemmst frá því að segja að féllum fyrir Bordeaux, veðrið var svo gott >30°C og miðbærinn svo fallegur að við ákváðum að gista þar eina nótt. Við skelltum okkur á lítinn veitingastað og hittum þar “local” fólk sem við spjölluðum við frameftir kvöldi. Þau voru einmitt frá Bordeaux og Cognac, ekki ónýtt það.
Það er ekki hægt að fara til þess héraðs sem framleiðir besta rauðvínið í Frakklandi án þess að kíkja í vínsmökkun, svo daginn eftir kíktum við í eina slíka og fengum að smakka. Þetta var professional og boðið upp á fötu til að spíta í, sem kom sér vel því við vorum að fara að keyra heim. Eftir það keyrðum við út að Atlandshafi á strönd sem heitir Arkachon. Þetta er mjög vinsæll staður hjá Frökkunum sjálfum til að fara í frí og það voru ótrúlega margir á ströndinni. Við settumst niður í sólina í 2 tíma og lögðum svo af stað tilbaka til Parísar og vorum komin heim um miðnætti.
---
Þessi ferð var í alla staði frábær. Við hittum skemmtilegt fólk og fengum að sjá meira af Frakklandi og eitthvað af Spáni. Það kom okkur líka á óvart hvað það var auðvelt að keyra þessa 2500 km. Við vorum yfirleitt að keyra 5-800 km í einu og það er furðu lítið mál, á meðan umferðin er ekki meiri en þetta. Við skemmtum okkur bara konunglega á leiðinni. BMW-inn stóð sig hörku vel, við fundum þó aðeins fyrir því að vera ekki með loftkælingu því á einum kafla fór hitinn í 33°C og það var glampandi sól. Þá var ekkert annað að gera en að skrúfa niður allar rúður og hækka í græjunum.
Við erum þegar farin að skipuleggja næstu ferð, þá verður stefnan líklega tekin á Ítalíu.
Hér eru nokkrar myndir úr ferðinni:
-----
Eftir 850km ferðalag, komin á vínekruna:
Vínekran sem við gistum á:
Fjallabær rétt hjá:
Rauðvín og ostar í hádegismat:
Komin til Bordeaux:
Vínsmökkun í vínkjallara í Bordeaux:
Auðvitað verður alltaf að stoppa og skoða BMW-a til sölu
Á ströndinni í Arkachon:
