Svíakonungur slapp ómeiddur úr árekstri
Engin slys urðu á fólki þegar Karl Gústaf Svíakonungur lenti í árekstri í morgun, en konungurinn ók BMW-bifreið sinni aftan á annan bíl. Að því er blaðið Berlingske Tidende skýrir frá og hefur eftir Aftonbladet var um minniháttar árekstur að ræða og átti hann sér stað í námunda við Ståthöga-hringtorgið í Norrköping í Svíþjóð.
Konungurinn ók silfurlitaðri BMW-bifreið sinni af gerðinni M3 CSL aftan á Volvo bifreið. Sænska öryggislögreglan (SÄPO) og sænska konungshöllin hafa staðfest að óhappið hafi átt sér stað. „Já það var konungurinn sjálfur sem ók. Að auki var aðstoðarmaður hans í bílnum,“ sagði Ann-Christine Jernberg, einn fjölmiðlafulltrúa sænsku konungshallarinnar í samtali við vefsíðu Aftonbladet. Hún bætti við að fregnir hermdu að ökumaður bílsins sem konungur ók hefði neyðst til þess að hemla vegna hjólreiðamanns sem fór um svæðið. Þetta gæti hún hins vegar ekki staðfest.
Aðeins voru framleiddir 1.500 bílar af gerðinni BMW M3 CSL, en Karl Gústaf fékk sitt eintak í júlí. Bíllinn er 360 hestöfl og með afar öflugri vél.
Tekið af mbl.is
Á hann ekki nokkra BMW bíla, eða er allavega mikill BMW fan
