Þessi áskorun okkar snýst í raun ekki bara um eldsneytiskostnað á bíla. Þetta er miklu stærra en það.
Þetta hefur áhrif á svo margt í þjóðfélaginu. Hækkun á heimsmarkaðsverði á eldsneyti hefur áhrif til hækkunar á verðtryggðum lánum (andsk... verðtryggingin), hækkunar á flutningskostnaði innanlands (matarverð hækkar), gerir það að verkum að við ferðumst minna innanlands sem þýðir samdrátt fyrir þá sem veita þjónustu við ferðalanga, o.fl.
Þetta er í raun að kyrkja þjóðfélagið og ráðamönnum virðist standa á sama
Ísland er t.d. meira en 2 sinnum stærra en Danmörk, stærra en Írland og um 40 sinnum stærra en Lúxemburg en samt sem áður búa margfalt fleiri í þessum löndum en hérna (t.d. í Lúx 511.000).
Þegar landið er svona helv... stórt, og við búum ekki öll í örfáum Æsufellum (sem væri klárlega hagkvæmara), þá þurfum við farartæki til þess að komast frá A til B sem og að flytja hluti frá A til B (þetta snýst ekki bara um flutning á fólki). Bíllinn hefur séð um að leysa það fyrir okkur og er enn sem komið hagkvæmasti kosturinn til þess fyrir þjóðarbúið.
Núverandi stjórnvöld virðast leggja ofuráherslu á að við notum aðra valkosti við að ferðast. Almenningssamgöngur eru alls ekki nógu góðar á Íslandi (og með hækkandi eldsneytisverði þá hækka fargjöldin). Reyndar er Strætó farinn að ganga lengra en áður (t.d. til Hafnar í Hornafirði) en þar eru menn strax farnir að veita afslátt á öryggi því að þeir virðast halda að það sé allt í lagi fyrir menn að standa í strætó á 90 km hraða milli Akraness og Reykjavíkur
Ekki er möguleiki fyrir alla að vera á reiðhjóli (t.d. þeir sem eru með börn á leikskólum) og svo virðist "viðmiðið" vera að ef þú átt bifreið sem eyðir of miklu eldsneyti þá áttu bara að kaupa þér sparneytnari. Hvernig sú stærðfræði gengur upp hjá Jóhönnu og Steingrími skil ég ekki.... hvernig í andsk... eiga menn að losna við "eldsneytisniðurföllin" þegar eldsneytisverð er komið upp í hæstu hæðir?
Svo er það bara tær snilld hjá "Norrænu vistvænu velverðarstjórninni" að benda fólki að kaupa vistvænni bíla s.s. eins og metan bíla. Þar fær maður "dúndurafslátt" af gjöldum og getur fengið bíl sem gengur fyrir metan og bensín (jafnvel með stóran bensíntank). Það er engin skylda að keyra á metan þegar maður hefur keypt sér metanbíl

svo að ef maður er t.d. búsettur úti á landi þá er það langskynsamlegast að kaupa metanbíl þó maður hafi engan aðgang að metani.
Þá hefur maður ákveðnar efasemdir um það magn metangass sem hægt er að framleiða á Íslandi....
Að mínu mati er þetta einfalt reikningsdæmi. Ríkið minnkar álögurnar á eldsneytið (það er enginn að tala um að afnema álögurnar) a.m.k. tímabundið (gæti fest það í krónutölu) og það mun hafa jákvæð áhrif á hagkerfið.
Vegagerðin hefur þegar sýnt fram, skv. talningum á þjóðvegum, á að ferðum hefur fækkað. Ríkið fær ekki eins miklar tekjur inn af eldsneyti og áður og þeirra leið virðist vera að auka álögurnar frekar en hitt. Það þar klárlega að útskýra fyrir ríkisvaldinu lögmálið um framboð og eftirspurn

.
Ef verðið lækkar þá mun það leiða til aukinna ferða/ferðalaga og ríkið mun ekki tapa á því. Samlegðaráhrifin eru mjög mikil!
Þá væri einnig ágætt að fá upplýsingar um hvað skatturinn er notaður í því að hann er alls ekki notaður á þann máta sem flestir virðast halda, þ.e. til samgöngumála (vegagerð etc). T.d. virðist enginn vita (nema ríkisstjórnin) í hvað nýjasti skatturinn (kolefnagjaldið) fer í
Í Noregi vita menn í hvað gjaldið fer (reyndar kaupmáttur hærri þar) og virðast Norðmenn almennt sáttari við eldsneytisverðið en við þrátt fyrir að það sé töluvert hærra þar.