Tegund persónuleikatruflunar er skyld sefasýkinni og kemur fram í ýktum geðbrigðum og athyglissýki. Slíkum einstaklingum líður illa ef þeir eru ekki miðpunktur athyglinnar í samkvæmum og nota öll ráð til að draga að sér athyglina. Þeir segja af sér frægðarsögur og gera oft mikið úr kvenhylli sinni, sem oftast hefur lítið á bak við sig. Þeir eru hástemmdir og sýna ýktar og yfirborðslegar geðshræringar og geðbrigði og almennt leikræna framkomu.
Einhver alvarlegasta tegundin er persónuleikatruflun af andfélagslegri gerð, sérstaklega af því að hún kemur verst niður á öðrum. Hún einkennist einmitt af tillitsleysi við aðra og hneigð til að brjóta á öðrum í eiginhagsmunaskyni. Virðingarleysi fyrir siðum, reglum og lögum er áberandi og því komast þeir oft í kast við lögin og geta jafnvel verið síbrotamenn. Ofbeldi er ekki óalgengt, ef það á einhvern hátt þjónar þeirra stundarhagsmunum. Þeir beita gjarnan lygum og blekkingum og geta með persónutöfrum oft gefið af sér trúverðuga mynd. Þeir hafa litla stjórn á löngunum sínum og ljúga mikið, framkvæma fljótt það sem þeim dettur í hug, en sjá ekki fyrir afleiðingarnar og læra ekki af reynslunni. Þeir hafa grunnar tilfinningar, hafa ekki samúð með öðrum nema á yfirborðinu, hafa ekki hæfileika til að tengjast öðrum tilfinningaböndum og ástarsambönd verða því gjarnan skammvinn. Samviskuleysi og siðblinda eru megineinkenni þeirra. Stundum ná slíkir menn langt í þjóðfélaginu, ef þeir eru greindir og heppnast að komast í valdastöður.
Fleiri gerðir persónuleikatruflana hafa verið skilgreindar. Sumar þeirra bera með sér skyldleika við og fara stundum saman við ákveðnar tegundir hugsýki eða geðveiki, en meginmunurinn er yfirleitt sá að í persónuleikatruflun eru þessi einkenni orðin hluti af persónugerð mannsins, en ekki óþægileg, utanaðkomandi ógnun við persónuna, vanlíðan sem hann vill losna við, eins og er í hugsýki eða geðveiki.
