Eftirfarandi er linkur á heimasíðu Nouriel Roubini sem er hagfræðiprófessor við New York háskóla. Hann spáði nákvæmlega þessu sem er að gerast núna í fjármálakerfi heimsins fyrir 2 árum en þá var hann talinn galinn. Hann telur að fjármálakerfi heimsins sé á barmi hruns. Alan Greenspan sagði líka um daginn að það sem væri að gerast á fjármálamörkuðum heimsins sé atburður sem gerist bara einu sinni á öld.
[url=http://www.rgemonitor.com/blog/roubini]Heimasíða Nouriel Roubini
[/url]
Núna er kapphlaup á bakvið tjöldin við að reyna að bjarga kerfinu. Nú er allt kapp lagt á að bjarga American Internation Group. Ef AIG (eitt sinn stærsta tryggingafélag heims) rúllar mun það hafa skelfilegar afleiðingar fyrir fjármálakerfi heimsins. Nú þegar eru 3 af 5 stærstu fjárfestingabönkum BNA annað hvort farnir á hausinn eða hafa verið yfirteknir. Það er bara tímaspursmál hvenær hinir fara. Ástæða þess að það er svo hættulegt að stór aðili eins og t.d. AIG fari á hausinn er að áhrifanna gætir svo víða. Þessi fyrirtæki er með afleiðusamninga við hvert annað og ef nokkrir stórir aðilar fara á hausinn hefur það dómínóáhrif á afleiðukerfi heimsins. Og við erum ekki að tala um neinar smá upphæðir. Það er talið að nafnverð afleiðusamninga í heiminum sé yfir $500.000 milljarðar sem er margföld heimsframleiðslan. Þannig að hrun á þessum markaði yrði algjör katastrófa fyrir kerfið.
Hér er tengill á grein sem skýrir betur hvers vegna fall stórs banka eins og Lehman Brothers er svo hættulegt.
Lehman's Bankruptcy the Ultimate Wall Street Derivatives Defaults Nightmare
Þannig að ef spár þessara manna sem eru hvað svartsýnastir rætast (en spár þeirra hafa að stórum hluta ræst annað en froðan frá greiningadeildum bankanna) þá er eins gott að spenna beltin.
Ég veit að nú munu margir halda að ég sé algjör svartsýnisröflari en ef maður bara skoðar málin aðeins og skoðar eitthvað annað en það sem kemur frá greiningadeildum bankanna sem hafa hag af því að láta hlutina líta betur út en þeir eru þá sér maður að útlitið er ekki bjart. Enda segir það sig sjálft að bóla sem gengur út á það að lána 100-110% lán til fólks sem engar líkur eru að geti staði við skuldbindingar sínar hlýtur að enda með ósköpum.
Þannig að því miður þá held ég að Nouriel Roubini og fleiri hans líkir hafi rétt fyrir sér.
En hvaða áhrif hefur þetta á Ísland? Það þarf nú bara að leggja saman 2 og 2 til að sjá að ef þessar svartsýnustu spár rætast þá hljóta afleiðingarnar fyrir þjóð sem er sú skuldugasta í heimi og hefur lifað langt um efni fram á seinustu árum að vera frekar svört.
En sem betur fer þá er landið mjög ríkt af auðlindum svo til lengri tíma ættum við að vera í góðum málum þó næstu ár geti orðið mjög erfið.