http://www.pressan.is/pressupennar/Lesa_Laru_B/taktu-thennan-samning-og-troddu-honum26. feb. 2011 - 20:00Lára Björg Björnsdóttir
Taktu þennan samning og troddu honum
Já hæ. Ég hef sjaldan skipt mér af neinu sem skiptir einhverju máli þannig lagað. Ég hef aldrei staðið froðufellandi í kokteilboði kyrkjandi gestgjafann yfir kvótakerfinu eða „ísbjörn eða ekki ísbjörn í Húsdýragarðinn“ eða hvort Steingrímur J. sé meðidda eða ekki. Þegar ég var yngri þóttist ég halda með Wham ef ég hitti Whammara og lék sama leik ef ég hitti einhvern með Duran Duran tattú á enninu. Flettið upp á „Kamelljóni“ eða „Tækifærissinna“ í orðabókinni og þar er flennistór mynd af mér með sérríglas og lagt hárið.
Ég hef því hagað mér í flestum tilfellum. Ég hef oftast þagað. Ég hef kyngt reiðinni og skoðunum mínum oftar en ég nenni að rifja upp og náð í meiri geitaost inn í eldhús, slétt úr svuntunni og brosað eins og sendiherrafrú á hestasterum. Jebb. Mikið er veðrið gott í dag. Og lóan bara komin? Ja hérna hér. Má bjóða ykkur heimalagaða sultu úr aðalbláberjum að norðan?
En ekki lengur. Ekki núna. Nú er komið nóg krakkar mínir. Núna ætla ég að leyfa mér að taka tryllinginn. Ég veit að ég hef áður beðið ykkur um að hætta ekki að lesa áður en ég tek reiðilestur en það hefur alltaf verið um eitthvað rugl sem skiptir engu máli (eins og Liverpool eða ást mína á Bandaríkjunum og svona). En mér er alvara núna og ég hyggst setja á mig rambó ennisbandið, rúlla mér í loftköstum inn á vígvöllinn og taka enga fanga í þetta skiptið. Og hlustið nú. Efst í huga mínum er ykkar hagur og hagur komandi kynslóða okkar Íslendinga.
Og bara eitt hérna. Ekki halda líka að mér þyki þetta eitthvað skemmtilegt. Mér líður fáránlega í þessu hlutverki manneskjunnar með „skoðanir“. Enda vil ég vera elskuð og þoli illa mótlæti. Ég vil vera vinsæl. Og ég vil ekki vera vond. Og oftast vil ég vera sammála öllum.
Ég hef verið kölluð öllum illum nöfnum fyrir eftirfarandi skoðun mína. Ég hef verið kölluð hægri öfgamaður og íhaldsmaður. Ég? Einstæð, skítblönk móðir á bótum, sem keyrir um á ónýtum dekkjum, sem er nánast með plakat upp á vegg af Che Guevara og altari með Guðrúnu Helgadóttur í stofunni? Minna.
En alla vega, hérna kemur þetta. Ég vil að við tökum þennan Icesave samning og troðum honum.
Hérna koma nokkrir punktar sem ég vil að þið íhugið áður en þið kjósið um Icesave samninginn 9. apríl:
Ein helstu rökin fyrir samþykkt Icesave samningsins eru þau að hann sé svo miklu betri en fyrri samningur. Eru það góð rök? Fyrri samningur var svo sjúkt lélegur að það mætti halda að samninganefndin hefði verið samansett af íkornum á valíum. Mundir þú giftast Gaddafi bara af því að Hitler var nýbúinn að biðja þín?
Enginn lögfræðingur heldur því lengur fram að íslenska ríkið og skattgreiðendur beri lagalega ábyrgð á Icesave. Aðeins standa eftir óljós rök um siðferðislega ábyrgð sem ég fæ ekki til að ganga upp enda var Landsbankinn einkafyrirtæki sem almenningur á Íslandi ber enga ábyrgð á.
Sumir halda því fram að Ísland verði útskúfað af alþjóðasamfélaginu og enginn muni vilja fjárfesta hér nema við samþykkjum þennan samning. Nú er ég ekki sérfræðingur í alþjóðafjármálum (enda kona) en ég veit þó það að alþjóðlegir bankar og gróðapungar eru fjárfestandi úti um allar koppagrundir þar sem einhver hagnaðarvon er, meira að segja í Líbíu. Þeim er alveg slétt sama um einhverjar deilur um innistæðutryggingar.
Og annað hérna, hefur það einhvern tímann skapað einhverjum virðingu alþjóðlega að láta kúga sig til að gera eitthvað sem öllum má vera ljóst að er ekki sanngjarnt? Menn geta hneykslast endalaust á því hvað starfsemi Landsbankans var óvönduð og ljót en hvað kemur það íslenskum skattgreiðendum við? Hvað kemur það syni mínum við sem á allt undir því að njóta sérstakrar aðstoðar í skólanum? Og sú aðstoð kostar fé.
Erfitt er að ímynda sér að niðurstaða hugsanlegs dómsmáls geti orðið óhagstæðari fyrir Ísland en þessi samningur. Núverandi samningur gengur beinlínis útá að ríkissjóður Íslands borgi Bretum og Hollendingum alla kröfu þeirra og það með vöxtum. Auk þess sem ljóst er að slíkt mál myndi enda fyrir íslenskum dómstólum (hæ Hæstiréttur Íslands!).
Og að lokum: Því er teflt fram sem rökum að ríkissjóður ráði við að greiða Icesave. Í fyrsta lagi eru það heimsins lélegustu rök að maður eigi að greiða eitthvað bara af því maður ræður við það. Eigum við að ræða það eitthvað? Mundir þú borga barreikninginn fyrir fyllibyttuna á næsta borði ef hann gæti sannfært þig um að þú hefðir efni á því? Í öðru lagi er eitthvað alvarlega bogið við að ríkið ráði vel við tugmilljarða greiðslur (26 milljarða strax í sumar) á sama tíma og verið er að skrapa saman nokkra tugi milljóna með því að baða gamla fólkið sjaldnar og draga úr kennslu grunnskólabarna og hætta að gefa þeim lýsi.
Fyrirgefiði mér elsku krakkar en ég get ekki annað en beðið ykkur um að muna eftir þessum rökum 9. apríl næst komandi. Og já, á meðan ég man: Takk útrásarvíkingar.