Ég ætla nú að byrja á því að taka það fram að ég tel mig ekki vera neinn sérfræðing í mössun, en ég er þó búinn að massa nokkra tugi bíla og kominn með smá þjálfun í þessu
Eitt sem menn verða að spurja sig að áður en þeir byrja er, hvort vil ég hafa bílinn svo góðann að hann sé tilbúinn á sýningu, eða bara að hann verði mun betri, en samt með kannski eitthvað af smárispum eftir, því að lakk er sprautað í bylgjum, og það er ekki að ástæðulausu. En það er til þess að bíllinn eigi erfiðara með að fá sjáanlegar rispur við að strúka yfir þá eða rekast aðeins í þá.
Þegar maður massar, þá auðvitað minnka bylgjurnar og bíllinn verður viðkvæmari fyrir snertingu. þannig að ef maður ætlar að massa slappt lakk það mikið að það verði alveg flawless, að þá er hætta á að lakkið verði alveg slétt, og lakkið verður það viðkvæmt á eftir að það getur rispast við minnsta áreiti
En það fyrsta sem menn þurfa helst að gera (fyrir utan auðvitað að þrífa bílinn vel), er að teipa með málningarteipi yfir ómálaða lista og aðra plastfleti, og einnig vefja rúðuþurrkurnar með dagblaði eða einhverju því það getur verið hundleiðinlegt að þrífa þær eftir að massaslettur hafa farið á þær. Sumir teipa líka yfir ljós, en ég geri það reyndar ekki þar sem maður á ekki að geta skemmt þau neitt ef maður bara passar sig aðeins í kringum þau.
Það sem maður getur mögulega þurft til að geta massað (fer eftir ástandi lakks), er: þrjár gerðir af púðum, s.s ullarpúði (fyrir grófa massann), hvítur og mjög stífur púði (hann er fyrir milligrófa massann), og svo svartur púði sem er mjög mjúkur (fyrir fínasta massann).
Svo eru auðvitað til margar tegundir af massa, en í mínu tilfelli notast ég alltaf við Farcéla blautmassann frá Poulsen. En þeir heita 6g rapid ultra (hann er grófastur), svo 3g (hann er milligrófur), og svo 10g Finishing polish (hann er fínastur)
Svo er það massarokkurinn, það er æskilegast að vera með rokk sem hægt er að stilla hraðann á, þar sem að of mikill hraði getur ofhitað lakkið og þá fer glæran í fokk, og auðvelt er að fara bara hreinlega í gegnum lakkið

Ráðlagður snúningur er frá 1500-2300 (fer eftir grófleika massans.
Svo þarf maður að hafa úðabrúsa til að geta úðað vatni passlega á lakkið, og aðeins á sjálfann púðann, en það er ekki gott að hafa of mikið vatn þar sem það er ekkert mjög spennandi að verða drullugur uppfyrir haus (þó er það mjög erfitt að fá ekkert á sig þegar notast er við blautmassa)
Það sem best er að gera til að fá bestu nýtinguna á massanum og lágmarka sóðaskapinn, er að úða létt yfir þann flöt sem maður ætlar að taka (best auðvitað að taka bara einn hlut í einu, t.d eina hurð í einu eða e.h) setja svo hæfilegt magn af massa í púðann og nudda honum létt yfir flötinn án þess að hafa vélina í gangi. Svo þegar búið er að dreifa honum jafnt yfir, þá er bara að byrja, og passa sig vel á því að fara ekki hratt yfir, einfaldlega vegna þess að þá nær maður ekkert að slípa lakkið, og hætta er á að maður búi bara til nýja rispuhringi. Oft þarf maður að fara þrisvar til fjórum sinnum yfir sama flötinn ef lakkið er illa farið, en best er að fara t.d tvisvar þversum, og svo þegar búið er að gera það við allann flötinn, að fara þá tvisvar langsum yfir.s.s í +
Hérna koma tvö dæmi
Þetta er Benz sem ég tók í gegn fyrir frænda minn, og eins og sjá má, að þá var lakkið orðið ansi ljótt á honum
Fyrir

eftir


Svo er það kagginn minn
Fyrir


eftir



Í fyrra dæminu var lakkið mjög slæmt, og notaðist ég þá við grófa massann og ullarpúðann fyrst, og á hraðinn helst að vera í 1500 snúningum en er þó í lagi að fara í 1800 snúninga, og fór svo vel yfir með fína massanum og svarta mjúka púðanum,en þá er í lagi að fara í 2300 snúninga þó best sé að byrja aðeins hægar, og koma það bara mjög vel út.
En í seinna dæminu, þá notaði ég bara milligrófa massann og hvíta stífa púðann, og hraðinn var í kringum 2000 snúninga, en til að þetta verði 100% eins og ég vil, að þá er gott að fara yfir með mjúka púðanum og fína massanum ( ég hafði bara ekki meiri tíma í þetta skiptið)
Það er nánast ómögulegt að massa án þess að það fari massi inní raufar og aðrar misfellur svo að það er mjög gott að hafa háþrýstidælu við höndina til að smúla þann skít í burtu.
En til að þrífa massann af bílnum hef ég stundum notað tjöruhreinsi til að hann verði lausari, og svampþvæ svo bílinn, og smúla svo af honum í lokin.
En það getur oft verið massaskí á bílnum þrátt fyrir allt þetta, en ef það er ekki of mikið að þá fer það bara á sama tíma og maður þrífur bónið af bílnum (maður verður ALLTAF að bóna bílinn eftir mössun þar sem það fer auðvitað öll vörn af lakkinu)
En í lokin að þá verð ég bara að segja að æfingin skapar meistarann, og ef maður hefur gaman af þessu, þá er maður fljótur að fá tilfinninguna fyrir þessu,

menn verða bara að passa að fara ekki of hratt yfir (til að ná að massa eitthvað í burtu og búa ekki til nýja rispuhringi), og einnig að fara ekki of hægt (til að ofhita ekki lakkið)
Ég vona bara að einhver geti notfært sér eitthvað af þessum upplýsingum, og ef menn vilja bæta einhverju við þetta eða spurja nánar útí þetta, þá er bara um að gera að pósta því hérna, enda getur vel verið að ég sé að gleyma einhverju
kv,