Datt í hug að þið hefðuð áhuga á að sjá nokkrar myndir og fá smá upplýsingar um 325i Coupé bílinn. Það eru reyndar til sorglega fáar myndir af þessum bíl þar sem ég átti ekki digital myndavél á þessum tíma.
Bíllinn er árgerð 1993 og var keyptur í München árið 1996 (held ég) af manni sem heitir Oliver (Íslendingur) og var hann í bílainnflutingi á þessum tíma. Fyrsti eigandi á Íslandi hét Magnús og átti hann bílinn í eitt ár. Hann setti hvít stefnuljós að framan á bílinn og keypti orginal M spoiler á skottið. Að mínu mati ekkert möst fyrir bílinn en er orginal og gerir hann öðruvísi. Ég myndi aldrei setja neinn annan spoiler á skottið á þessum bíl. Annar helsti búnaður var svart leður, sóllúga, minni gerðin af aksturstölvu (check control og útihitamælir), sætishiti, þokuljós o.fl.
Bíllinn var fyrst á 15" five spoke felgum (ekki orginal) og voru þessar felgur síðar notaðar eingöngu fyrir vetrardekkin. Það fyrsta sem ég gerði fyrir bílinn var að kaupa 17" BBS RX felgur, 8" breiðar, undir hann af Impetus fyrirtækinu sáluga. Ég valdi sömu dekkjastærð og kom orginal á M3 á þessum tíma, 245/40 að aftan og 225/45 að framan. Þetta kom ágætlega út þótt felgurnar væru jafn breiðar að framan og aftan.
Þegar dekkin fóru undir rákust afturdekkin aðeins inn í brettin. Það var auðveldlega lagað með slípirokki og svo ryðvarði ég á eftir og eftir það var allt í lagi. Bíllinn lét hins vegar alltaf mjög illa í hjólförum á höfuðborgarsvæðinu og maður þurfti alltaf að stýra á móti. Þetta endaði með því að framdekkin slitnuðu mikið á brúnunum og því þurfit að skipta. Ég ákvað að prófa næstu stærð fyrir neðan, 215/45, og viti menn, það var allt annað líf. Hvort sem það var þessum centimetra að þakka eða öðru munstri veit ég ekki en bíllinn gerbreyttist.
Ég keypti líka augnlok á bílinn úti í London, styttri gerðina sem nær ekki út á stefnuljósin. Sprautaði þetta sjálfur og límdi á. Í sömu ferð var líka keypt segulbandshólf á milli framsæta (kom í ljós seinna að þetta var að sjálfsögðu fyrir hægri handar stýri og var því hálf klúðurslegt) og krómstútar á pústið.
Ég setti góðan pakka af græjum í bílinn. Í hann fór Sony tæki með kassettu og 6 diska magasín. Fram í voru 13 cm hátalarar og tweeterar frá JBL. Ég færði síðan orginal hátalarana sem voru fram í aftur í en eftir á að hyggja hefði maður frekar átt að sleppa því. Aftur í var síðan 12" bassahátalari frá JBL og 6 rása JBL magnari þar sem tvær rásir voru brúaðar fyrir bassann.
Miklar spekúleringar voru í kringum græjurnar. Ég vildi ekki eyðileggja skottið og því var magnarinn og bassinn settur upp undir hilluna og látið taka eins lítið pláss og mögulegt var. Ég var síðan aðeins að leika mér með staðsetningu á tweeterunum fram í. Setti þá fyrst inn í miðstöðvarrásirnar út við hurðirnar en fannst hátíðnihljóðin vera of nálægt mér svo ég flutti þá niður í hurðina eins nálægt venjulegu hátölurunum eins og ég gat og setti viðnám á þá til að míkja. Þegar ég hlusta á tónlist vil ég hafa það sem ég hlusta á fyrir framan mig og því setti ég enga stóra hátalara afturí og mín skoðun er eiginlega að maður eigi að sleppa því. En sitt sýnist hverjum. Ásgeir og fleiri hjá Aukaraf hjálpuðu mér mikið í þessum pælingum og get ég mælt með þeim.
Næstu breytingar á bílnum komu eftir að ég bjó í München sumarið 1999. Þá fór ég í aðal söluumboð BMW í BMW höfuðborginni og verslaði mér sett af M speglum og armpúða á milli sætanna. Sem dæmi um verðmismun kostaði armpúðinn út eitthvað um 10.000 ISK en B&L setti á hann eitthvað yfir 40 þús. Spurning hvort það kostar svona mikið að senda hann?
Mig langaði líka að breyta bílnum að framan. Hann var of hár að framan að mínu mati en ég vildi ekki fara út í að lækka hann því við búum jú á Íslandi og það er bara ekki praktístk. Ég ákvað því að kaupa svuntu framan á hann frá fyrirtæki sem heitir
JMS-Fahrzeugteile og er staðsett rétt sunnan við Stuttgart. Ég fékk mér bíltúr til þeirra og þeir sendu síðan stykkið til Íslands. Ég hafði smá áhyggjur af tollinum en þegar upp var staðið tolluðu þeir þetta sem plaststykki en ekki bílavarahlut og því borgaði ég held ég ekkert nema vaskinn af þessu.
Ég límdi svuntuna ekki á bílinn heldur bjó til festingar og skrúfaði og boltaði í orginal stuðarann. Með þessu móti gat ég tekið svuntuna af á veturna sem ég og gerði. Það kom líka í ljós að þessi aðferð við að festa þetta á bílinn var mjög praktísk því ef maður rak þetta niður þá hreyfðust festingarnar einfaldlega til en svuntan brotnaði ekki. Bíllinn var ekki það lágur að maður ræki hann niður á hraðahindrunum en þegar maður lagði í stæði þurfti að passa sig á gangstéttarköntum. Ég samlitaði bílinn að framan þegar þetta fór undir en sleppti því að samlita afturstuðarann af praktískum og peningalegum ástæðum.
Bíllinn var síðan seldur haustið 2001 og það var ungur strákur sem mig minnir að hafi verið frá Dalvík sem keypti hann.
Og að lokum nokkrar myndir sem ég fann. Meira um kvartmílubrautarmyndirnar er að finna á
öðrum þræði hérna

_________________
Nökkvi
BMW E36 Alpina B3 3,0 cabrio
Seldir: BMW E46 328i '99, BMW E39 540i '96, Audi Cabrio 2,0 '93, BMW E36 325i Coupé '93
