Forsíða  
Fréttir  
Greinar  
Ljósmyndakeppni  
Myndasafn  
Myndbönd  
Reiknivél  
Hlekkir  
Samband  
Klúbburinn  
Fríðindi  
Samþykkt  
Skráning  
Spjall  

Bíll mánaðarins!

oskard/arnib ©2005
 
Bíll aprílmánaðar er BMW E36 328i
Bíll mánaðarins er bostongrænn E36 328i '96. Það var ekki auðvelt verk fyrir BMW að koma með bíl til að taka við af hinum vel heppnaða og vinsæla E30 bíl en engu að síður virðist hafa heppnast mjög vel.

Þegar E36 kom fram á sjónarsviðið árið 1991 var greinilegt að eina ferðina enn hafði meisturunum í München tekist að framleiða verðugan arftaka. Með E36 mátti sjá mjög miklar breytingar framfarir í tækni, stærð, útliti sem og mörgu öðru og má segja að E36 hafi byrjað þær dramatísku breytingar á útliti BMW bifreiða sem mátti síðar sjá í bæði 5- og 7-línunni.

E36 kom í ýmsum útfærslum, allt frá fjögurra cylindra 316i upp í bíl mánaðarins 328i, útfærslurnar voru ansi margar, tveggja dyra blæju (cabrio), og coupe, fjögurra dyra sedan, touring og loks M3 í cabrio, coupe og fjögurra dyra. Með 328i bílnum kynnti BMW til sögunnar nýju M52 vélina sem var í boði í 2.0 (320i), 2.5 (323i) og 2.8 (328i) lítra útgáfum. Undanfari M52 var M50 sem fékkst sem 2.0 (320i) og 2.5 (325i). Um svipað leiti árið 1996 voru gerðar nokkrar minniháttar breytingar á útliti E36 bílanna, s.k. facelift. Sama vél með nokkrum breytingum (M52TU) var svo kynnt með arftaka E36 bílnum, E46.

Hjarta bílsins er óumdeilanlega vélin. Vélin í 328i er mjög skemmtileg, togar vel og er einnig ótrúlega góð á hærri snúningi. Þó hún sé aðeins einu hestafli meira en 325i vélin var þá hefur hún mikið á hana í togi og maður finnur óneitanlega mikið fyrir því. Eins og í flestum línusexu vélum frá BMW er hljóðið mjög fallegt, þýð og hljóðlát í hægagangi en öskrar á mann þegar vel er tekið á.

Bíll mánaðarins er beinskiptur sem gerir hann jafnvel enn skemmtilegri en annars og það er sama hvort verið er að keyra á langkeyrslu, í innanbæjar umferð eða við "kreatífan" akstur í hringtorgum eða jafnvel á braut þá er hann alltaf unun að keyra, alltaf nóg afl þegar þess þarf og því þarf ekki mikið að vera að hræra í skiptingunni jafnvel í mikilli umferð.

Það er nokkurnvegin sama á hvaða hraða er keyrt, alltaf virðist bíllinn eiga nóg eftir og ökumaður þarf að passa sig því það er fljótlegt að ná ökuskírteinismissishraða. Þetta kemur sér mjög vel úti á þjóðvegunum þegar taka þarf framúr, það er mjög auðvelt og fljótlegt og ekki þarf sífellt að skipta niður fyrir framúrakstur (þó það veiti vissulega ansi mikla ánægju að skipta niður og gefa hressilega inn).

Miðað við skemmtanagildi 328i bílsins er alveg merkilegt hversu litlu hann neytir af bensíni. Innanbæjar er neyslan í kringum 12-13 l/km og í langkeyrslu fer hann auðveldlega niður í 8 l/km. Þarna hjálpar eflaust tog vélarinnar sem gerir það að verkum að hún þarf ekki að erfiða mikið.

Bíllinn er ekki með læst drif en þar kemur spólvörnin sterk inn í snjó og hálku.

Að utan er E36 mjög rennilegur að sjá, vígalegur, lágstæður framendi þar sem framdekkin sitja mjög framarlega. Bíll mánaðarins kom mjög vel útbúinn frá verksmiðju og í þeim pakka er svokallaður M-sportpakki. M-sportpakkinn gerir bílinn enn rennilegri og má þar nefna breyttan framstuðara sem er opinn og vígalegur. Á hliðunum má sjá breytta sílsa og breiðari hurðalista með M lógói. Að aftan er einnig breyttur stuðari þar sem tvöfalt pústið gægist út og gefur ákveðna vísbendingu um að eitthvað annað er um að ræða en 316i. Á afturstuðaranum má einnig sjá bakkskynjarana sem vara ökumann við ef bakkað er of nærri hindrunum. Seinni tíma útlitsbreytingar á bílnum má nefna hvít stefnuljós, grá hliðarstefnuljós og M spegla.

Upprunalegar 16" style 30 felgur eru undir bílnum, sportlegar og fara bílnum mjög vel þó að E36 bíllinn megi vissulega við stærri felgum og lítur mjög vel út með jafnvel allt upp í 19" felgur.

Eins og áður hefur komið fram er bíll mánaðarins mjög vel búinn, jafnvel óvenjulega vel búinn miðað við marga E36 bíla. Að innan má fyrst nefna M og aðra sportlega hluti eins og sportsætin með stuðningi fyrir læri, hærri köntum á hliðum og tvískipt áklæði þar sem hliðar eru leðraðar en miðjan ekki. Annað sem maður tekur eftir þegar betur er að gáð er meðal annars þriggja arma leðurklætt stýri, M gírhnúður og svört klæðning í toppnum eins og tíðkast í M bílunum og einnig svartar taumottur á gólfi. Einnig hefur armpúða verið bætt við á milli framsætanna.

Þægindin eru mikil í þessum bíl, til dæmis er sjálfvirk digital loftkæling með sitthvorum hitastilli fyrir ökumann og farþega sem kemur mjög vel og alls ekki bara á heitustu sumardögum eins og margir vilja meina.

Stóra aksturstölvan er til staðar sem bíður meðal annars upp á tvo eyðslumæla, sýnir hversu langt er hægt að keyra á því bensíni sem eftir er á tankinum, meðalhraða, hraðaviðvörun og fleira. BMW Business útvarp með segulbandstæki er í bílnum og allir pixelar eru í fínu lagi í skjánum, bæði á aksturstölvunni og í útvarpinu.

Tvívirka topplúgan kemur sér mjög vel á góðviðrisdögum. Aftursætin eru með hauspúða og hægt er að fella sætin niður sem getur verið mjög þægilegt og reynslan hefur sýnt að hægt er að flytja ótrúlega mikið í skottinu þegar sætin eru felld niður, til dæmis tugi fermetra af perketi án þess að þurfi að láta nokkuð standa út úr opnu skotti.

Það má segja að 328i sameini marga hluti svosem skemmtilega aksturseiginleika og afl sportbíls og þægindi stærri bíla. Bensíneyðslan er merkilega lítil miðað við aflmikla vélina og gerir bílinn mjög praktískan daily driver. Það má alveg hiklaust mæla með þessum bílum og ef fólk leggur etv. ekki alveg í M3 og það sem þeim og öðrum M bílum fylgir þá er 328i bíllinn alveg tilvalinn kostur fyrir skynsama.





Greinaskrif:Ingimar
Myndband:Ingi og Þröstur
Myndir:Sveinbjörn









BMW E36 328i
 
Vélin
M52B28 L-6
2.793cc slagrými
24 ventlar
193 hö / 5300 rpm
280 Nm / 3950 rpm
 
Skipting
5 gíra beinskiptur
1. 1:4.20
2. 1:2.49
3. 1:1.66
4. 1:1.24
5. 1:1.00
 
Afköst
0-100km/h: 7.3 sek
80-120km/h í 4.gír: 10.3 sek
V-MAX: 236 km/h
 
Drif
Afturhjóladrifinn
Hlutfall 1:2.93
 
Bremsur
Framan:
286x22 kældir Brembo
Aftan:
280x20 OEM
ABS
 
Fjöðrun:
M-Technik fjöðrun
 
Felgur og dekk
16" style 30
Yokohama Iceguard 205/55R16
 
Bíllinn
Breidd: 1698mm
Lengd: 4433mm
Þyngd: 1420kg
Hæð: 1393mm
 
Myndbönd